Miðvikudagur 26. mars 2003

85. tbl. 7. árg.

Hreinn Kröyer, kaupmaður og þrjótur, var tekinn höndum í gær og síðan hefur veldi hans hrunið eins og spilaborg. Var það ekki vonum fyrr þar sem kaupmannsnefna þessi er hinn versti maður sem hefur ítrekað brotið réttindi viðskiptavina sinna. Hreinn selur sem kunnugt er verkfæri og borðbúnað en eins og mörg fórnarlömb hans geta vottað þá stillir hann varningi sínum upp innarlega í versluninni en hefur hann ekki til sýnis í gluggunum. Í gluggunum eru bara pottablóm, músastigar og innrömmuð mynd af Gísla Sveinssyni sýslumanni sem Hreinn studdi á sínum tíma eindregið. Þessi gluggaútstilling er skýrt brot á réttindum borgaranna sem eiga heimtingu á því að kaupmenn stilli söluvarningi sínum upp í búðargluggunum. Það er því maklegt að snjallir og hófsamir starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafi nú handsamað Hrein og gert honum verðskuldaða refsingu fyrir brot sitt.

Ha? Hvaða rugl er nú? Jú mikið rétt, þessi frásögn er hreinn hugarburður og ef nokkur Hreinn Kröyer er yfirleitt til þá hefur hann eflaust aldrei rekið verkfæraverslun og þaðan af síður verið sektaður fyrir að hafa varninginn ekki til sýnis útí glugga. En hvað, af hverju er verið að þvaðra þetta? Jú fyrir því er ástæða. Það er nefnilega mesta furða að ekki sé refsivert að hafa söluvarning ekki úti í glugga. Að minnsta kosti fara starfsmenn Samkeppnisstofnunar nú milli verslana og sekta þá kaupmenn sem hafa varning úti í glugga án þess að taka fram hvað hver og ein vara kostar! Það er semsagt refsivert að hafa óverðmerkta vöru uppi við, en heimilt að hafa vörurnar alls ekki til sýnis. Fyrirbærunum sem sömdu og framfylgja samkeppnislögunum þykir greinilega sem skárra sé fyrir fólk að það séu engar vörur í gluggunum en að þær séu þar án verðmiða!

Gamanlaust, í 31. gr. samkeppnislaga segir að fyrirtækjum sem selji vöru eða þjónustu sé skylt að „merkja vöru sína og þjónustu með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það.“ Og á grundvelli þessa ótrúlega lagaákvæðis ákvað samkeppnisráð nýlega að sekta verslun eina um 400.000 krónur fyrir að vera ekki með merkingar sem væru svo skýrar að eftirlitssveit Samkeppnisstofnunar skildi. Þessi vitfirring er með hreinum ólíkindum og þegar það bætist við að Samkeppnisstofnun sendir þessa dagana sveitir manna milli fyrirtækja að kanna verðmiða, ja hvað á þá að segja? Hvernig er hægt að fá þá flugu í höfuðið að menn eigi heimtingu á því að kaupmenn setji verðmiða út um alla búð? Er einhver neyddur til að kaupa vöru sem hann veit ekki hvað kostar? Er sennilegt að viðskiptavinurinn geti ekki fengið að vita verðið með öðru móti en áberandi merkingum? Halda menn að kaupmaður myndi ekki svara einfaldri fyrirspurn viðskiptavinar? Er líklegt að kúnninn kaupi vöru sem hann hefur ekki hugmynd um hvað kostar? Er yfirleitt nokkur maður neyddur inn í nokkra búð? Heldur einhver í alvöru að það sé viðskiptavinum í hag að búðir séu sektaðar fyrir að vera ekki með verðmiða út um allt? Hver ætli að borgi þá sekt á endanum? Kaupmaðurinn? Guðmundur á Samkeppnisstofnun? Eða ætli það gæti verið að verslunin hækkaði vöruverðið til að greiða sektina? Hvaða vitfirring er þetta?

Segjum svo að maður nokkur tilkynni að hann hafi ákveðið að opna verslun og selja þar gæðavöru við lágu verði. Af ástæðum sem hann kjósi að halda fyrir sig þá hafi hann ákveðið að hafa enga verðmerkingu en muni hins vegar svara munnlegum fyrirspurnum viðskiptavina um verð hverrar og einnar vöru. Nokkuð sérstakt og seinlegt fyrirkomulag vissulega, en þetta nú er sérvitur maður og svona vill hann hafa sína búð. Megi hann það ekki, þá bara loki hann og flytji aftur til Sussex að sinna þar býflugnabúi sínu. Jæja. Þegar svona er komið, þá hefur ríkið tvo kosti. Loka búðinni með lögregluvaldi eða láta hana óáreitta. Við vitum hvað þeir á Samkeppnisstofnun telja betra fyrir neytendur, en hvað finnst venjulegu fólki?