Þriðjudagur 25. mars 2003

84. tbl. 7. árg.

Það kemur ekki beinlínis á óvart að formaður Samfylkingarinnar snúist þegar minnst varir en ýmsum hefur þótt nóg um sinnaskipti hans í utanríkismálum síðustu dagana vegna innrásar Bandaríkjamanna og Breta í Írak. „Án samþykkis Öryggisráðsins er þetta grímulaust árásarstríð,“ var haft eftir honum í DV en fyrir fjórum árum lýsti hann yfir afdráttarlausum stuðningi við árás NATO á Júgóslavíu þótt Öryggisráðið hefði aldrei heimilað slíkar árásir. Og það er allt í stíl. Í gær ritaði rétt kjörinn formaður Samfylkingarinnar grein í Fréttablaðið þar sem hann fullyrti að það væri rangt að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hefðu lækkað skattana.

„Sjálfstæðisflokkurinn sendir kerfisbundið út þá þjóðsögu að Davíð Oddsson hafi lækkað tekjuskatta. Það er rangt“
 – Össur Skarphéðinsson í Fréttablaðinu í gær.
„Í þessu þensluástandi sem núna ríkir þá tel ég það vera mikil mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta yfir línuna, líka til þeirra sem höfðu enga þörf fyrir slíkt og notuðu þetta sem kaupmáttarauka til þess að eyða í innfluttan lúxus.“
 – Össur Skarphéðinsson á Stöð 2 11. apríl 1999.

Þegar núverandi formaður Samfylkingarinnar hrökklaðist úr ríkisstjórn árið 1995, eftir að þáverandi og einn af mörgum fyrrverandi flokkum hans hafði brotlent í þingkosningum með aðild Íslands að ESB sem helsta stefnumál, var tekjuskattur einstaklinga 41,93%. Vinstri stjórnin á árunum 1988 – 1991 hækkaði tekjuskattshlutfallið úr 35,20 í 39,79%. Nú er tekjuskatturinn 38,55% auk þess sem menn geta frestað skattlagningu lífeyrisiðgjalda. Ef menn fullnýta þá frestun er skattprósentan 35,47%. Til viðbótar hefur svo verið lagður á svonefndur hátekjuskattur sem stjórnarandstaðan þver og endilöng fagnaði ógurlega.

En hvað um það. Össur Skarphéðinsson telur nú að skattalækkanir „yfir línuna“ hafi alls ekki verið skattalækkanir og gott ef ekki skattahækkanir.