Æþað er eitthvað skemmtilegt við ritdeilur. Einkum þar sem tekist er á um undarleg mál sem ekkert almennt gildi hafa, enda verða skrifin þá jafnan því heitari sem málefnið er smávægilegra. Ein efnileg deila hófst á dögunum þegar Guðný Aradóttir nokkur skrifaði í Morgunblaðið og kvartaði yfir því að Ármann Jakobsson einn hefði áður skrifað einhverja grein þar sem hann hefði farið heldur háðulegum orðum um menntastofnun eina, Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar, en þar mun Guðný hafa stundað nám sér til þroska og mannbóta. Taldi Guðný Ármann hafa gerst sekan um kvenfyrirlitningu, en það er glæpur sem auðvelt er að fremja og eftir því erfitt að verjast ákærum vegna hans. Ármann svaraði þegar í Morgunblaðinu og taldi grein Guðnýjar meinyrta í sinn garð og kallar „subbuskrif“. Ekki þarf að búast við að svo merk kona sitji þegjandi undir því að vera sökuð um að dreifa subbuskap um síður Morgunblaðsins svo Ármann mun eflaust fá þessar ásakanir til baka með vöxtum, jafnskjótt og Guðný kemur því við frá önnum við önnur störf. Er hér efnileg ritdeila í uppsiglingu og má mikils af henni vænta.
En talandi um „Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar“ þá er hann eitt fyndið dæmið enn um tilraunir Samfylkingarmanna til að búa til stóran og mikinn flokk. Ekki svo að skilja að „stjórnmálaskóli“ sé nauðsynlegur til þess, heldur hafa Samfylkingarmenn auðvitað tekið eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengist fyrir stjórnmálaskóla, og það raunar um nokkra hríð því Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins var fyrst settur hinn 15. febrúar 1938. En Samfylkingarmenn vilja gera allt eins og stóri flokkurinn í von um að þeir verði þá líka stórir og þá náttúrlega verður að stofna „Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar“. Meira að segja nafnið verður að vera mutatis mutandis eins.
En þetta er ekki fyndnasta ljósritunartilraun Samfylkingarmanna, eða hvað þeir heita hverju sinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi rekið svokallað styrktarmannakerfi, þar sem flokksfélagar leggja flokknum til nokkra upphæð reglulega, yfirleitt nokkur hundruð krónur, til að gera rekstur hans auðveldari. Hluti þessa styrks félagsmannsins rennur svo til þess sjálfstæðisfélags sem hann er félagi í, en í Sjálfstæðisflokknum eru fjölmörg félög, Heimdallur, Hvöt og svo framvegis og svo framvegis. Á eyðublaði sem nýir styrktarmenn fylla út er svo boðið upp á hjónaaðild að kerfinu og geta hjónin þá skipt greiðslunni milli þeirra félaga sem þau eru í. Á eyðublaðinu eru þannig reitirnir „sjálfstæðisfélag 1“ og „sjálfstæðisfélag 2“. Nú, jæja, í síðustu kosningum ákvað R-listinn að stofna styrkarmannakerfi. Nema hvað, auðvitað „útbjuggu“ þeir eyðublað sem var slíkt ljósrit af því sem sjálfstæðismenn nota, að R-listamenn voru meira að segja vinsamlega beðnir um að velja sér „sjálfstæðisfélag 1“ og „sjálfstæðisfélag 2“ til að styðja, og svo framvegis.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er eins og áður segir byggður á fjölda sjálfstæðisfélaga; Heimdalli, Óðni, Hvöt og fjölda hverfafélaga. Og þess vegna verður líka að stofna slík félög í samfylkingarflokkunum. Skemmtileg frásaga af stofnun slíks félags var sögð í blaði sem hét Vor í Reykjavík og R-listinn gaf út fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994. Þar skrifaði hinn merki frambjóðandi, Helgi Hjörvar, grein þar sem meðal annars voru þessu fögru orð:
„Pólitík er ekki eitthvað sem menn ákveða í lokuðum herbergjum. Pólitík gerist þannig að fólk tekur frumkvæði og það verður ekkert stöðvað. Þannig var t.d. stofnað 17. maí félag stuðningsmanna Reykjavíkurlistans í Grafarvogi. Og það er bara vegna þess að fólkinu í Grafarvogi fannst að það þyrfti að stofna félag. Það spyr hvorki kóng né prest að því. Það bara stofnar sitt félag.“ |
Þetta er falleg saga og skiljanlegt að Helgi Hjörvar sé hrærður. Eini gallinn er sá að þennan stóra dag, 17. maí, daginn sem fólkið í Grafarvogi stofnaði þetta óvænta félag án samráðs við kónga, presta eða þýðingarminni starfsstéttir, þá var blaðið með grein Helga þegar komið í dreifingu um alla borg.