Ísetningarræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær kom fram hver vilji flokksins til skattalækkana er á næstu árum. Óhætt er að fullyrða að sjaldan hafi verið settar fram jafn miklar og víðtækar tillögur um skattalækkun hér á landi og þess vegna er líka óhætt að fullyrða að sjaldan hafi frjálslyndir menn haft jafn ríka ástæðu til að fagna ræðu sem þessari. Í ræðu sinni sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að vilji flokksins stæði til þess að lækka tekjuskatt einstaklinga um 4% á næsta kjörtímabili, sem felur það í sér að staðgreiðslan lækki úr 38,5% í 34,5%. Þetta er lægra hlutfall en þegar skatturinn var fyrst tekinn upp árið 1988, en þá var staðgreiðsla einstaklinga, sem er tekjuskattur að viðbættu útsvari, 35,2%.
Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig lækka virðisaukaskatt á matvæli og aðrar vörur og þjónustu sem er í lægra virðisaukaskattsþrepinu úr 14% í 7%. Best færi á því að virðisaukaskattur væri allur í einu lágu þrepi, en í tæpan áratug hafa verið tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu. Þó æskilegast væri að færa allan virðisaukaskatt niður er það engu að síður svo að lækkun lægra þrepsins um helming lækkar skattbyrði almennings. Með þessari lækkun mun matarverð lækka svo um munar.
Í ræðu formannsins kom einnig fram að vilji stæði til þess að lækka öll þrep erfðafjárskatts um helming, þannig að almennt þrep verði 5% og að fyrstu milljónirnar verði erfðaskattslausar. Þetta er jákvætt skref í rétta átt, en fullur sigur á erfðafjárskattinum vinnst ekki fyrr en hann hefur verið afnuminn að fullu, enda óvenjulega ranglátur skattur. Þá lýsti formaðurinn vilja flokksins til að auka skattfrelsi viðbótarframlaga í viðbótarlífeyrissparnað. Loks skýrði hann frá vilja flokksins til að afnema eignarskatt með öllu, en hann var lækkaður úr 1,2% í 0,6% á yfirstandandi kjörtímabili. Í tíð síðustu vinstri stjórnar, þegar eignarskatturinn var upp á sitt „besta“, fór hann hæst í 2,95%. Það er því mikil breyting fyrir þá sem hafa komið sér upp skuldlausum eignum ef hann verður afnuminn að fullu og menn hætta að þurfa að þola hægfara eignarnám af hendi ríkisins.
Menn þurfa ekkert að fara í grafgötur um viðbrögð vinstri manna við þessum tillögum. Þeir munu reyna að gera þær sem ótrúverðugastar og beita til þess ýmsum hefðbundnum aðferðum vinstri manna. Ein þeirra er að þær „kosti“ of mikið, en vinstri menn telja að aldrei séu til fjármunir til að lækka skatta, rétt eins og fjármunirnir verði til í ríkissjóði. Staðreyndin er þó auðvitað sú að því lægri sem skattarnir eru, þeim mun meiri fjármunir verða til í þjóðfélaginu. Eins og dæmin sanna getur þessi verðmætaaukning jafnvel orðið svo mikil að ríkissjóður fái auknar tekjur þrátt fyrir lækkun skatthlutfallanna. Þeir sem telja að verðmætasköpunin verði í ríkissjóði munu þó seint skilja þessa hugsun og líklega verður fátt til að sannfæra þá fyrst hvorki reynsla né rök hafa dugað hingað til.