Ífréttum liðinnar viku fullyrti Herdís Þorgeirsdóttir að konur væru aðeins „hálfdrættingar“ á við karla í launum. Sigríður Þorgeirsdóttir systir hennar hnykkti á þessari skoðun í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í dag en hún hefur áður getið sér orð fyrir að lýsa því yfir að „lögmál kapítalismans [sé] stuldur“.
Hálfdrættingar já. Konum væri ef til greiði gerður með fullyrðingum af þessu tagi ef þær ættu við einhver rök að styðjast. Þá hefði það kannski örlítið upplýsingagildi. Og þó. Kemur það konum vel, hvort sem þær hafa í raun almennt hærri eða lægri laun en karlar, að nokkrar „kvenréttindakonur“ eða „feministar“ úr þeirra hópi eru sífellt að auglýsa útsölu á starfskröftum þeirra án þess að konur hafi almennt gefið kost á sér sem niðursett vinnuafl? Hvaðan kemur þessum systrum og fleiri kvenréttindakonum þörf til að tala niður til annarra kvenna með þessum hætti?
Konur hafa ekki helming af launum karla þegar allt er talið; vinnutími, menntun, staða, starfsreynsla, starfsaldur og svo framvegis. Þær hafa svipuð laun og karlar. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða af neinni vissu um hvort það muni kannski 5 – 10% vegna þess að engin tvö störf eru í raun hin „sömu“, menntun er ekki „sambærileg“ í öllum tilvikum og prófgráður geta verið sumum afar notadrjúgar en öðrum gagnslausar.
Fullyrðingar þeirra Þorgeirsdætra um mikinn mun á launum kynjanna eru raunar engin nýmæli. Látlaust dynja á almenningi skilaboð af þessu tagi. Oftast er hreinlega við fjölmiðlamenn að sakast því þeir hafa ekki tíma til eða nenna þá ekki að lesa annað en fyrirsagnir úr misvönduðum kjarakönnunum þar sem vissulega má oft lesa að konur hafi mun lægri tekjur en karlar en þá á eftir að taka tillit til flestra þeirra þátta sem hafa áhrif á tekjur manna.
Og þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem gerð er athugasemd við þessa framsetningu. Fyrir nokkrum misserum var sagt frá því hér á þessum síðum hvernig fyrrum starfsmaður kjararannsóknarnefndar lítur á þessi mál en hann hafði framsögu á fundi um hinn margumrædda launamun.: „Jafnréttismál voru til umræðu á fundi Heimdallar í gærkvöldi. Einn ræðumanna, Helgi Tómasson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og fyrrum starfsmaður kjararannsóknarnefndar útskýrði erfiðleikana við að bera saman laun karla og kvenna. Í máli hans kom fram að þau meðaltöl sem notuð eru til að bera launin saman eru lítt eða ekki marktæk. Hann sagði jafnframt að hann teldi þann launamun sem oft er talað um að sé á milli karla og kvenna að minnsta kosti mun minni en yfirleitt er látið í veðri vaka og bætti raunar um betur og sagðist ekki treysta sér til að segja til um að nokkur launamunur væri hér á landi.
Það sem veldur þeim misskilningi að hér sé einhver eða jafnvel verulegur launamunur eru erfiðleikar í samanburði. Það sem verður að gera þegar verið er að bera saman tvo hópa er að taka tillit til skekkju sem verður af völdum þátta eins og vinnutíma, stöðu, aldurs og svo framvegis. Þegar þetta hefur verið gert er í versta falli afar lítill mælanlegur munur eftir á milli kynja. Að mati Helga er þessi munur sem sagt svo lítill að ekki er hægt að fullyrða nokkuð um hvort raunverulegur launamunur er á milli kynjanna. Þetta eru óneitanlega afar merkilegar niðurstöður og væri full ástæða fyrir fréttamenn að kynna sér þær áður en þeir fjalla næst um „launamuninn“ og til hvaða „aðgerða“ skuli grípa til að „leiðrétta“ hann.“