Laugardagur 18. janúar 2003

18. tbl. 7. árg.

Þeir voru snöggir að segja þeim að fara norður og niður, Svíarnir. Já sko, Norðmenn eiga nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið um greiðslur sínar til þess og tollfrjálsan aðgang að mörkuðum sambandsins að lokinni stækkun þess. Norðmenn töldu fjárkröfur Evrópusambandsins með öllu ótengdar raunveruleikanum og brugðu því á það ráð að leita eftir skilningi á sínum sjónarmiðum hjá þeim Evrópusambandsþjóðum sem þeir töldu næst sér standa. Og erindið hafði varla borist frá Osló til Stokkhólms þegar Göran Persson var búinn að tilkynna að Norðmenn ættu bara að halda sér saman og borga það sem upp er sett.

Eins og menn vita sitja sænskir ráðamenn enn og velta vöngum yfir því hvernig þeir geti komið Íslandi út úr Alþjóða hvalveiðiráðinu og brugðið fæti fyrir þau áform Íslendinga að hefja að nýju hvalveiðar við landið. En þarna gerðu þeir sem sagt stutt hlé á bollaleggingum sínum til þess að steyta hnefann framan í nágranna sína, Norðmenn. Og allt í lagi með þetta, Svíum er ekki skylt að sýna þessum svo kölluðu frændþjóðum sínum nokkra frændsemi þegar kemur að atkvæðagreiðslum innan alþjóðasamtaka. Hvorki Íslendingar né Norðmenn eiga nokkra heimtingu á stuðningi Svía – sem er eins gott því slíkur stuðningur er sjaldan ef nokkurn tíma í boði.

Og hvers vegna er verið að nefna þetta hér? Jú, því einhverra hluta vegna er stundum látið þannig í opinberri umræðu á Íslandi að ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið þá yrðu þeir ekki sú áhrifalausa smáþjóð sem vænta mætti heldur myndu þeir jafnan eiga sænska, finnska og danska hauka í horni, hvenær sem á þyrfti að halda. „Norðurlöndin yrðu sterk heild innan Evrópusambandins“ er stundum fullyrt hér, rétt eins og ekkert sé sjálfsagðara. En, rétt eins og nýleg dæmi minna á, þá er ekki nokkur ástæða til að ætla að „frændþjóðir“ Íslendinga myndu reynast þeim sérstakir bandamenn þó Íslendingum lægi mikið á. Eini frændskapurinn sem telja má nokkrar líkur á, er sá að margir íslenskir ráðamenn myndu telja það bæði skyldu Íslands og sóma að styðja „frændur okkar“ í Skandinavíu í stóru sem smáu. En sú tryggð yrði aldrei launuð. Frændsemi Íslands og Svíþjóðar yrði þannig sennilega – eins og Vefþjóðviljinn hefur áður haldið fram – svipuð og mægðir Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Auðmýkt á annan veginn. Fyrirlitning og fullkomið tillitsleysi á hinn.