Föstudagur 17. janúar 2003

17. tbl. 7. árg.
„I have long said: „I never met a tax cut I didn’t like“ – though I would go on to say that I like some better than others.“
 –  Milton Friedman Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði í The Wall Street Journal í fyrradag.

Fyrir tæpum tveimur mánuðum var vikið að því hér að ef til vill væri það ekki alslæmt að ríkið væri rekið með halla: „Það liggur við að menn séu farnir að sakna þess tíma þegar ríkissjóður var rekinn með halla. Hallinn veitti útgjaldaglöðum þingmönnum ákveðið aðhald þótt hallarekstur sveitarfélaga dugi ekki sem aðhald á gjörsamlega ábyrgðarlausa sveitarstjórnarmenn. Nú þegar ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi um nokkur ár virðast menn hins vegar telja að þar með hafi menn meira umboð til að eyða annarra manna fé og ekki sé sama þörf á aðhaldi og áður.“

Í grein sinni í The Wall Street Journal í fyrradag veltir Friedman því fyrir sér, ekki í fyrsta sinn, hvernig koma megi böndum á vöxt hins opinbera: „Ég held að það sé aðeins ein leið fær. Það er sama leið og foreldrar fara þegar þeir þurfa að hemja eyðslu barna sinna. Þeir minnka við þau vasapeninginn. Þegar ríkið er annars vegar þýðir þetta einfaldlega að lækka þarf skatta. Fjárlagahalli sem fylgir í kjölfarið er skilvirk – og mér liggur við að segja eina skilvirka – leiðin til að spyrna mót eyðslusemi ríkisstjórnar og löggjafans. Viðbrögð almennings við hallarekstrinum hafa þessi áhrif.“

Friedman segist ósammála því að það dugi að hækka skatta til að eyða fjárlagahalla. Um leið og hallanum hafi verið eytt sjái eyðsluklærnar meðal kjörinna fulltrúa færi á eyða meiru. Skattalækkanir geti vissulega leitt til aukins halla um tíma en langtímaáhrifin séu vörn gegn eyðslu. Friedman segir sumar skattalækkanir auðvitað betri en aðrar. Skattalækkanir sem hvetja menn til aukinna umsvifa og draga úr mismunun eru betri en aðrar að hans mati. Varanlegar skattalækkanir séu betri en tímabundnar. Tillögur George W. Bush um skattalækkanir fá því góða einkunn hjá Friedman enda er þar gert ráð fyrir að afnema tvísköttun á fyrirtæki og lækka skatta á arðgreiðslur þeirra.