H
Það má alltaf reyna. |
venær eru mótmæli fjöldamótmæli? Hvenær eru þau bara venjulegt píp sem alltaf má búast við? Þegar ólíkar skoðanir borgaranna á tilteknu máli eru metnar, á þá eingöngu að miða við hve margir eru hverrar skoðunar, eða skiptir máli hitinn í hverjum og einum? Það er að segja, ef til dæmis 60 af hundraði manna eru frekar en ekki hlynntir tilteknu máli en 40 af hundraði viti sínu fjær af andstöðu, hvernig á að meta það? Já og hvaða spurningar eru þetta eiginlega?
Það er alltaf verið að mótmæla. Sumir mæta í öll mótmæli og hafa varla undan að mótmæla virkjun hér og stríði þar. Þegar kennarar fara í verkfall setjast þessir menn á ganga fjármálaráðuneytisins, spila á gítar og neita að fara út. Þeir sitja á Landsbókasafninu fram á nótt til að heimta að safnið verði opið lengur. Þeir fara í mótmælagöngu að þýska sendiráðinu ef Þjóðverjar ætla að loka Goethe-stofnuninni. Ef erlent herskip kemur til hafnar þá eru þeir mættir með níðstöng. Ef haldin er heræfing reyna þeir að hlekkja sig við tæki og tól. Mesta furða að þeir reyni ekki að stöðva víkingahátíðina í Hafnarfirði. Og alltaf kalla þeir aðgerðir sínar lýðræðisleg mótmæli þó þeim sé undantekningarlítið beint að löglegum athöfnum sem lýðræðislega kjörnir valdhafar eiga forgöngu að.
Það er nokkurn veginn sama hvaða málstaður berst í tal, það er hægt að finna hóp manna sem styður hann. Það að safna saman þúsund manns á torgi eða í bíósal segir svo sem ekki mikið um stuðning eða andstöðu þorra manna við eitthvert málefni, þó aðstandendur samkomunnar fari uppveðraðir heim til sín á eftir og ríkisfjölmiðlarnir endursegi dagskrá fundarins í hverjum einasta fréttatíma í sólarhring. En það er heldur ekkert að því að menn haldi slíka fundi eða berjist fyrir sínum sjónarmiðum með slíkum hætti. Það að kynna málstað sinn með fundum, blaðagreinum, bæklingaútgáfu og jafnvel framboði í kosningum, það er lýðræðisleg leið sem ekkert er athugavert að menn fari. Og það er ekkert við það að athuga þó menn láti ekki af baráttu sinni þó löglega kjörin stjórnvöld hafi tekið sínar ákvarðanir um málefnið. Að minnsta kosti ekki meðan enn er unnt að breyta þeim ákvörðunum með einhverri skynsemi. Þannig er til dæmis ekkert athugavert við það að andstæðingar fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar haldi baráttu sinni áfram, að minnsta kosti meðan ekki er komið að þeim punkti að ekki verði snúið við.
En þó ekkert sé við það að athuga að fólk haldi slíkri baráttu áfram þá er hins að geta að menn geta ekki ætlast til þess að slík mótmæli þyki alltaf fréttnæm. Í Kárahnjúkamálinu, svo haldið sé áfram með það dæmi, liggur alveg fyrir að skoðanir eru skiptar og ætla má að þau rök sem máli skipta séu komin fram. Það getur ekki átt erindi í fréttatíma sem sérstakt innlegg í málið að menn hafi enn og aftur komið saman á Austurvelli og sungið lag eða vafið álpappír utan um styttu Jóns Sigurðssonar. Það er hins vegar fréttnæmt þegar borgarstjórinn í Reykjavík eykur meirihlutann fyrir borgarábyrgð á verkefninu úr átta atkvæðum í níu með þeim orðum að hún sé nú ekki endilega hlynnt virkjuninni en vilji hins vegar ekki „bregða fæti fyrir verkefnið“.
En það er svo annað mál.