Ingibjargarfarsinn – sem hún sjálf nefndi lönguvitleysu fyrir skömmu – heldur áfram og nú segjast Samfylkingarmenn vera að ræða um að hún verði hvorki meira né minna en „pólitískur leiðtogi“ flokksins í væntanlegum kosningum og jafnframt „forsætisráðherraefni“ hans. Segja Samfylkingarmenn að fyrirmyndin að þessari snjöllu hugmynd sé komin frá öðrum löndum Norðurlanda þar sem Jens Stoltenberg hafi í kosningunum 2001 verið forsætisráðherraefni norska Verkamannaflokksins en ekki Torbjörn Jagland formaður flokksins! Nú væri fagnaðarefni ef Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði í eitt skipti gerð að foringja Samfylkingarinnar og kjósendum þannig gert ljóst að nú væri stefnt að því að reyna að færa skuldasöfnunarstjórn Reykjavíkurborgar yfir á ríkið allt. Þá þyrftu kjósendur ekki að velkjast neitt í vafa um það. En þessi hugmynd, um einn formann en einhvern allt annan pólitískan leiðtoga, er hins vegar hreinn skrípaleikur.
Ef að einhver tiltekinn flokksmaður er bæði „pólitískur leiðtogi“ og „forsætisráðherraefni“ – hvert er þá hlutverk formanns flokksins, sem einnig býður sig fram í sömu kosningum? Formaðurinn, sem varð efstur í prófkjöri í höfuðborginni – ekki með glæsikosningu en efstur samt – leiðir listann en frambjóðandi í 5. sæti, frambjóðandi sem hvorki nú né nokkurn tíma á lífsleiðinni hefur farið í prófkjör, sá frambjóðandi er „pólitískur leiðtogi“ og „forsætisráðherraefni“! Hvaða spaug er þetta eiginlega? Ekkert hefur Vefþjóðviljinn á móti því að Samfylkingin skipti um leiðtoga og ekkert varðar blaðið svo sem um skipulag einstakra stjórnmálaflokka. En þetta er bara of mikil vitleysa. Ef Samfylkingarmenn vilja að Ingibjörg Sólrún verði eitthvað sem þeir kalla „pólitískan leiðtoga“, nú þá einfaldlega hættir formaður flokksins og hún tekur við af honum. Við því er ekkert sérstakt að segja, það er hin eðlilega leið, hin eðlilegu vinnubrögð. En, hvort sem Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og náunustu stuðningsmönnum hennar líkar það betur eða verr, þá gera lög Samfylkingarinnar ráð fyrir því að félagsmenn kjósi sér formann og félagsmenn í Samfylkingunni kusu Össur Skarphéðinsson sem leiðtoga sinn. Þegar lög flokksins krefjast allsherjarkosningar formannsins – hann er ekki kosinn á landsfundi heldur í allsherjaratkvæðagreiðslu allra flokksmanna – þá er ljóst að þessi formaður er sá eini sem getur komist nálægt því að vera leiðtogi flokksins. Og þessi allsherjaratkvæðagreiðsla var meira að segja höfð til marks um að Samfylkingin væri sérstaklega lýðræðislegur flokkur sem léti ekki litlar klíkur skipa málum. Þó stuðningsmenn eins tiltekins flokksmanns kunni að vilja fá sinn mann sem leiðtoga í stað hins réttkjörna leiðtoga, þá er ekki hægt að fara fram hjá reglum flokksins með því að búa til nýtt embætti, í raun æðra því sem valið er í með allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna um allt land!
Í stuttu máli: formaður Samfylkingarinnar hlýtur að vera sá eini sem kemst nálægt því að vera „pólitískur leiðtogi“ hennar í næstu kosningum. Hvort það er Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða einhver annar, það er svo annað mál. En ef menn vilja skipta um pólitískan leiðtoga þá hljóta þeir að skipta um formann um leið.
Við þetta er svo því að bæta að Torbjörn Jagland var forsætisráðherra Noregs og forsætisráðherraefni Verkamannaflokksins á sínum tíma. Hann lýsti því hins vegar yfir fyrir kosningar að næði flokkur hans ekki tilteknu atkvæðamagni myndi hann ekki verða forsætisráðherra aftur. Þetta takmark náðist ekki og Jagland lét af embætti. Þegar Verkamannaflokknum bauðst forsætisráðherrastóllinn aftur, síðar á því kjörtímabili, stóð Jagland vitaskuld við yfirlýsingu sína og Jens Stoltenberg varð forsætisráðherra og þar með vitaskuld forsætisráðherraefni flokksins. Af þessu dæmi má ekki ráða neitt í líkingu við það sem stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur reyna eða gagnrýnislausir fréttamenn trúa. En, þetta dæmi minnir á að eitt er það sem leiðtogar íslenskra krata hafa enn ekki lært af félögum sínum í Skandinavíu. Og það er að yfirlýsing fyrir kosningar gildir líka eftir kosningar.