Þriðjudagur 7. janúar 2003

7. tbl. 7. árg.

Þetta var fyrsta frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi. Stórfelldar hækkanir dynja nú á þeim sem síst skyldi: heilbrigðisráðherra hefur gefið út reglugerð um hækkun ákveðinna gjalda sem innheimt eru í heilbrigðiskerfinu. Má mæla þetta í tugum prósenta enda gerði fréttamaður Stöðvar 2 það svikalaust. „Tuttugu prósent hækkun“ glumdi úr sjónvarpstækjunum og áhorfendur hafa ekki þurft að heyra meira til að átta sig á því að nú er búið með það að sjúkir almúgamenn fái bót meina sinna á Íslandi. En hver ætli hækkun komugjalda verði hjá lífeyrisþegum, sem væntanlega eru þeir sem úr minnstu hafa að spila? Hækkunin, þessi stórfellda, verður 50 krónur. Komugjöldin fara úr 200 krónum í 250 krónur. Já Stöð 2 gat haft textann „Tuttugu prósent hækkun“ á skjánum sem kynningu á því sem nú er í bígerð. Og búið til áhrifamikla frétt. Fréttastofan svokallaða hefði líka getað skellt „50 króna hækkun!“ á skjáinn en að vísu er ekki víst að eins margir áhorfendur hefðu þá sopið hveljur. Það er ekki víst að sú frétt hefði orðið neinn sérstakur rökstuðningur fyrir því að nú sé bráðnauðsynlegt að mynda „velferðarstjórn“ á Íslandi.

Þetta er eflaust forsmekkurinn af því sem koma skal, enda fleiri og fleiri fjölmiðlar komnir í kosningaham. Næstu mánuði munu vandamálafréttamenn leika lausum hala og hvert „neyðarástandið“ á eftir öðru reka á fjörur þeirra. Fréttablaðið mun svo bæta við samsæriskenningum sem allar verða hafðar eftir „mönnum“. Næstu mánuðina munu „menn telja“ allan fjárann og verða því sannfærðari sem órarnir verða fjarstæðukenndari. Og eftir að slíkar staðleysur hafa verið matreiddar í nokkra daga verða skrifaðar greinar þar sem vísað er í furðukenningarnar sem hver önnur sannindi sem „allir“ þekki. Og þegar Alþingi kemur saman að nýju munu svo utandagskrárumræðurnar hefjast. Rás 2 mun senda þær út. Spegillinn mun svo endurtaka valda kafla í þeim og kalla Svan Kristjánsson og Herdísi Þorgeirsdóttur til álits.

Við þetta má svo bæta að það eru fleiri komnir í kosningaham en fjölmiðlarnir. ASÍ, BSRB og efalaust fleiri samtök sem féfletta almenning við hverja útborgun launa hafa mótmælt þessum gríðarlegu „verðhækkunum“ á heilbrigðisþjónustu. Í þessari „hækkun“ felst eins og áður sagði að komugjald á heilsugæslu hækkar úr 200 krónum í 250 fyrir börn og eldra fólk en aðrir greiða 1.400 í stað 1.100 króna áður. Þetta er þó í raun ekki verðhækkun enda er aðeins verið að flytja örlítið brot af kostnaðinum af skattgreiðendum yfir á þá sem nýta þjónustuna. Kostnaðurinn verður sá sami og áður.

Það fer samtökum eins og ASÍ og BSRB sem rekin eru fyrir nauðungargjöld „félagsmanna“ ekki vel að gagnrýna gjaldtöku af almenningi. Þau hirða tugi þúsunda króna af venjulegum launamanni á hverju ári. Það mætti mæta mörgum „hækkunum“ á heilbrigðisþjónustu með því að lækka nauðungargjöldin í stéttarfélögin. BSRB hefur svo ekki hikað við að nota þessi „félagsgjöld“ í hápólitískan áróður, m.a. til að flytja inn heimskunna ofstækismenn gegn einkarekstri.