Mánudagur 6. janúar 2003

6. tbl. 7. árg.

Þeir hafa verið að segja að kosningabaráttan í vor verði einhver sú harðasta sem fram hefur farið. Það er nú það. Í gær gengu stjórnarandstæðingarnir Margrét Frímannsdóttir fyrrverandi talsmaður Samfylkingarinnar og núverandi varaformaður hennar og Ögmundur Jónasson þingflokksformaður VG á hólm við Geir H. Haarde fjármálaráðherra í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Flestir áhorfendur hafa vafalítið búist við braki og brestum í sjónvarpstækjunum þegar umræðan stæði sem hæst og harkan færi að segja til sín.

Allir voru þátttakendur sammála um að aðalatriðið væri að kosningabaráttan yrði málefnaleg. Svo uppteknir voru þeir raunar við að telja áhorfendum, stjórnanda þáttarins og hverjum öðrum trú um að þetta yrði allt að vera afar málefnalegt að þeir komust ekki í að ræða málefnin. Þrátt fyrir alla hörkuna sem menn hafa keppst við að spá fyrir um hafði Margrét ekki fram að færa neina gagnrýni á ríkisstjórnina en Ögmundur náði þó að geta þess í framhjáhlaupi að VG yrði á móti „stalínískum þungaiðnaði“.

Þegar langt var liðið á þáttinn spurði stjórnandi hans hálf miður sín hvort ekki væri áhugi á að ræða mál eins og Evrópumálin. Jú það vantaði ekki áhuginn var afar mikill, ekki síst áhugi Margrétar. Að vísu voru Evrópumálin ekki rædd frekar og harkan lét enn á sér standa.

Að lokum má svo geta þess að Margrét Frímannsdóttir taldi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ekki vera á leið í neitt alvöruframboð með því að setjast í 5. sætið hjá Samfylkingunni í Reykjavík og þess vegna væri hún væntanlega ekki að svíkja loforð um að fara ekki í þingframboð. Seinna bætti hún við að það skipti svo sem engu máli hvort hún væri í fyrsta, öðru, fjórða eða fimmta sæti. Hún yrði alltaf í miklu hlutverki!