Ýmsir af vinstri kanti stjórnmálanna hafa horn í síðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra þessa dagana. Er ýmislegt tínt til henni til hnjóðs. Fyrir viku birtist grein Í Morgunblaðinu eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur um utanríkisstefnu Íslands. Grein sína hefur hún eins og nær allir Samfylkingarmenn hefja mál sitt í dag á því að krefjast „úttektar“ á málinu „í upphafi nýrrar aldar“. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort Samfylkingarmenn hefðu yfirleitt skoðanir á nokkrum hlut í dag ef ekki vildi svo vel til að ný öld væri gengin í garð. Allt virðist hanga á þeirri spýtu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur almennt lítið álit á utanríkisstefnu Íslands fram til þessa sem hún telur hafa einkennst af stefnuleysi. Með einni undantekningu þó. „Undantekningin sem sannar regluna er auðvitað aðild Íslands að samningnum um evrópskt efnahagssvæði. Við gerð hans réð framsýni för. Gildi samningsins fyrir Ísland er óumdeilt. Svo óumdeilt, að varla er hægt að gera sér í hugarlund hversu slæm staða okkar í Evrópu og gagnvart Evrópusambandinu væri í dag ef EES nyti ekki við,“ segir Þórunn í greininni. Hér er heldur langt seilst til að koma höggi á borgarstjórann í Reykjavík. Hefur borgarstjórinn ekki nóg með sitt í dag þótt gamlir félagar úr Kvennalistanum séu ekki að rifja upp tíu ára gamla skandala af Alþingi? Eins og menn vita þá studdi þingmaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki aðild Íslands að EES og skorti þá „framsýni“ sem Þórunn telur að hafi forðað Íslendingum frá því að lenda í svo „slæmri“ stöðu gagnvart ESB að vart sé hægt að hugsa þá hugsun til enda.
„…keypti hins vegar „ungt fólk í Samfylkingunni“ auglýsingu á besta stað í Morgunblaðinu. Í auglýsingunni var mælt með því að íslensk stjórnvöld beiti innflutningshöftum og niðurgreiðslum til að koma í veg fyrir að innflutningur grænmetis og ávaxta, m.a. frá fátækum ríkjum heims, eigi tækifæri inn á íslenskan markað.“ |
Það er fleira bitastætt í grein Þórunnar í upphafi nýrrar aldar. Þórunn telur mjög eðlilegt að ESB krefjist greiðslu af stærra taginu í þróunarsjóði sína gegn því að veita Íslendingum frjálsan aðgang að mörkuðum sambandsins. Sérstakar greiðslur fyrir leyfi til að stunda verslun og annan atvinnurekstur hafa þó heldur verið á undanhaldi síðustu áratugina. Íslendingar voru manna fegnastir því þegar danska krúnan hætti að selja aðgang að viðskiptum við Ísland. Nú fagnar Samfylkingarfólk því sérstaklega að Evrópusambandið taki upp slík vinnubrögð. Þórunn heldur því reyndar fram máli sínu til stuðnings að framlög þessi muni renna til uppbyggingar í fátækari ríkjum sambandsins. Þessi rök eru kostuleg. Allir njóta góðs af frjálsum viðskiptum. Það er einmitt hagmunamál hinna nýju og fátæku ríkja Evrópusambandsins að áfram verði frjáls viðskipti milli þeirra og EFTA ríkjanna en fríverslunarsamningar þeirra við EFTA ríkin falla því miður úr gildi þegar nýju ríkin ganga í ESB. Telur Þórunn það í alvöru ásættanlegt að fólki í hinum fátækari ríkjum Evrópusambandsins verði meinað að kaupa tollfrjálsan varning frá EFTA löndunum ef EFTA löndin samþykkja ekki fjárkúganir ESB? Það væri meiriháttar hneyksli ef Íslendingar tækju þátt í því að kaupa viðskiptaleyfi dýrum dómum við fátæk lönd Evrópu – ekki af löndunum sjálfum – heldur af skrifræðisbákninu í Brussel.
Og svo eru það fjármunir sem settir eru í þróunaraðstoð en um þá segir Þórunn: „Framlög Íslands til þróunarsamvinnu er hreint út sagt til skammar en þau ná rétt 0,11% af vergri þjóðarframleiðslu þrátt fyrir fögur fyrirheit um að standa við markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% framlag.“ Það er ekkert annað. Hreint út sagt til skammar! En er þeim fjármunum sem varið er til þróunarsamvinnu vel varið? Um það má í það minnsta deila. Oft gerir slík aðstoð ekki annað en lengja valdatíð einræðisherra sem eiga mikla sök á því hvernig komið er fyrir efnahag viðkomandi lands. Slík lækning er oft á tíðum verri en sjálfur sjúkdómurinn. Það sem fátækari þjóðir heimsins þurfa er tækifæri en ekki ölmusa. Þær þurfa tækifæri til að framleiða eigin mat í stað þess að fá senda afganga frá Vesturlöndum. Þær þurfa tækifæri til að selja framleiðslu sína á vestrænum mörkuðum svo kaupa megi betri vélar og nýjustu tækni í staðinn.
Fyrir nokkrum misserum keypti hins vegar „ungt fólk í Samfylkingunni“ auglýsingu á besta stað í Morgunblaðinu. Í auglýsingunni var mælt með því að íslensk stjórnvöld beiti innflutningshöftum og niðurgreiðslum til að koma í veg fyrir að innflutningur grænmetis og ávaxta, m.a. frá fátækum ríkjum heims, eigi tækifæri inn á íslenskan markað.
Það hefur löngum verið stefna íslenskra vinstrimanna að gera sem flesta landsmenn að viðskiptavinum velferðarkerfisins í stað þess að þeir stundi viðskipti hver við annan sér til hagbóta og framfærslu. Nú virðist sem búið sé að alþjóðavæða þessa stefnu „á nýrri öld“ og nú eigi að gera sem flesta íbúa í fátækum ríkjum heimsins að viðskiptavinum íslenska velferðarkerfisins enda verði þeim bannað að stunda viðskipti sér til sjálfsbjargar.