Laugardagur 28. desember 2002

362. tbl. 6. árg.

Eins og menn muna kannski varð nokkurt uppnám þegar George W. Bush forseti Bandaríkjanna boðaði að trúarhópar gætu náð sér í opinbera styrki til að reka velferðarþjónustu, sjúkraþjónustu og skóla. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ýmsir hugsa sér gott til glóðarinnar þegar opnað er fyrir nýja leið til að ná sér í opinbera styrki.

Vefþjóðviljinn hefur stundum látið að því liggja að málflutningur svonefndra umhverfisverndarmanna sé ekki ósvipaður öfgafullum trúarboðskap enda mun álíka heitt í neðra og verður þegar gróðurhúsaáhrifin hafa refsað mönnum fyrir mengunarsyndir sínar. Nú virðist sem ýmsir umhverfisverndarhópar hafi einmitt áhuga fyrir því að fá nokkuð af fyrrnefndum styrkjum til trúarhópa. Er ætlun þeirra að stunda sitt trúboð, endurvinnslu, sjálfbæra þróun, sjálfsþurftarbúskap og heimsendaspár fyrir hið opinbera fé.

Sem von er þykir ýmsum sem þetta gangi þvert gegn upphaflegri hugmynd Bush um að trúarhópar geti fengið fé til að bæta hag mannsins því umhverfisverndarsinnar séu á móti almennum framförum, hagvexti og betri lífsskilyrðum mannsins. Og eins og áróður umhverfisverndarsinnar um offjölgun mannkyns ber með sér eru þeir síðast en ekki síst á móti (fleira) fólki. Mannskepnan er í hugum umhverfisverndarsinnar helsta mein hinnar óspilltu veraldar, sníkjudýr á náttúrunni.

En þarna er vissulega komin viðurkenning á því sjónarmiði sem hér hefur stundum verið haldið á lofti að boðskapur umhverfisverndarmanna sé trúarofstæki líkastur.