Á gengust eiðar,
orð og særi,
mál öll meginleg,
er á meðal fóru.
-Völuspá
Sjaldan hefur hún átt eins vel við lýsingin að ekki standi steinn yfir steini. Fyrir almenna borgara, jafnvel þá sem fram að þessu höfðu ekki verið sérstaklega trúaðir á heilindi ennverandi borgarstjóra í Reykjavík, hefur verið með hreinum ólíkindum að fylgjast með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hrekjast úr einu víginu í annað undanfarna daga. Trúverðugleiki hennar – að ekki sé minnst á þá ímynd að hún geti frekar en aðrir orðið til að sameina vinstri menn á Íslandi – hefur af hennar einnar völdum beðið slíkan hnekki að vart finnst önnur lýsing betri en að ekki standi steinn yfir steini.
Ingibjörg Sólrún og stuðningsmenn hennar voru í vor þeirrar skoðunar að þeir væru umtalsvert fleiri sem væru reiðubúnir að styðja hana til embættis borgarstjóra en vildu styðja R-listann sjálfan eða aðra borgarfulltrúa hans. Það var þess vegna sem Ingibjörg Sólrún fullyrti við kjósendur að hún myndi ekki bjóða sig fram til Alþingis að ári heldur myndi einbeita sér að því að vera borgarstjóri Reykvíkinga. Þessu lofaði Ingibjörg Sólrún í viðtali eftir viðtal, enda voru þeir margir sem vildu fá þetta alveg á hreint. Eins og Ingibjörg Sólrún benti sjálf á, af þeirri hógværð sem henni er gefin, þá naut R-listinn minni stuðnings en hún sjálf og því skiljanlegt að þeir sem vildu styðja hana en ekki R-listann vildu fá að vita hvort þeir væru í raun að kjósa hana eða ekki.
„Nei, það er ekki tryggt. Ég gæti náttúrlega hrokkið upp af!“
Spurt er vegna þess að oft er talað um að Samfylkinguna vanti nýjan leiðtoga og þú nefnd til sögunnar.
„Það er ekki mitt viðfangsefni. Ég er að bjóða mig fram til næstu fjögurra ára en ætla mér hins vegar ekki að verða ellidauð hérna í Ráðhúsinu.“
En þú ætlar að vera þar næstu fjögur ár?
„Já, ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það spurningin sem undir liggur.“
Nei kæru borgarbúar, hún er sko ekki á leiðinni í þingframboð. Kjósiði R-listann óhræddir og hún verður borgarstjóri nema hún hrökkvi upp af. – Hvernig er það, eru aðalatriði þessa máls eitthvað torséð? Það vita það allir sem vilja vita að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf borgarbúum skýr og ákveðin fyrirheit síðastliðið vor. ‘Ég fer ekki í þingframboð, kjósiði mig og ég einbeiti mér að borgarstjórninni nema ég hrökkvi upp af!’ var efnislega það sem hún sagði í viðtali eftir viðtal. Og þetta sagði hún ekki aðeins við þá borgarbúa sem hún taldi að styddu sig en ekki R-listann. Hún hét svokölluðum samstarfsmönnum sínum því einnig að ef þeir stuðluðu að því að hún næði endurkjöri sem borgarstjóri myndi hún ekki nýta sér eitt valdamesta embætti landsins í kosningabaráttu gegn þeim sjálfum níu mánuðum síðar. Engin af þessum loforðum hennar eru henni sjálfri nokkurs virði. Kjósendur, þessir sem hún sjálf taldi að kysu sig en ekki R-listann, sitja nú uppi með R-listann en ekki hana. Samstarfsmennirnir sem lyftu henni til metorða í trausti þess að hún snerist ekki gegn þeim níu mánuðum síðar, þeir eru þegar búnir að fá hana í bakið.
Nei það eru ekki blóðþyrstir pólitískir andstæðingar heldur „margt af harðasta stuðningsfólki“ Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem spyr hvort „skýrar yfirlýsingar“ hennar „standi ekki“. Og það er ekki spurt af rælni eða orðhengilshætti, nei heldur betur ekki. „Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur strykur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika“ sagði Dagur B. Eggertsson fyrir þremur mánuðum. Og vel að merkja, Dagur B. Eggertsson er hvorki lævís framsóknarmaður eða vonsvikinn vinstri-grænn. Hann er beinlínis sérstakur trúnaðarmaður Ingibjargar Sólrúnar, tilnefndur á R-listann af henni einni. Hann er allra borgarfulltrúa ólíklegastur til að halla máli, Ingibjörgu Sólrúnu í óhag. Og orð Dags eru svo skýr að þau verða ekki misskilin: Ingibjörg Sólrún gaf borgarbúum skýrar yfirlýsingar. Yfirlýsingar sem voru svo skýrar að það er beinlínis lykilspurning um trúverðugleika hennar hvort hún fer í þingframboð eða ekki.
Já, þessi spurning skiptir lykilmáli um trúverðugleika Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sagði Dagur B. Eggertsson sem hefur nú eins og aðrir borgarbúar fengið svar við lykilspurningu sinni. Þessu hefur meira að segja Ingibjörg Sólrún sjálf áttað sig á um tíma og reyndi þess vegna fyrst að klóra í bakkann. Fyrir aðeins viku reyndi hún að gefa þær skýringar á skyndilegu framboði sínu, að þau tíðindi hefðu orðið frá því hún gaf skýrar yfirlýsingar á báðar hendur, að tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu gefið kost á sér til þings og þyrfti R-listinn að eiga sitt mótvægi þar ef borgarmálin kæmu á borð þingmanna. Þessi skýring Ingibjargar Sólrúnar var auðvitað svo fjarstæðukennd sem mest mátti vera, þó flestir fréttamenn hafi að vísu sent hana út án þess að efast um neitt. Í fyrsta lagi vissu allir að Björn Bjarnason sat á þingi og hafði hugsað sér að halda því áfram eftir að hann beið lægri hlut í borgarstjórnarkosningunum. Eina breytingin frá því Ingibjörg Sólrún gaf allar sínar yfirlýsingar og þar til hún sneri gersamlega við blaðinu var því sú að Guðlaugur Þór Þórðarson hafði gefið kost á sér til þings. Og fréttamenn létu bera það á borð fyrir sig að Ingibjörg Sólrún sneri baki við skýrum loforðum og heitstrengingum til þess að vera mótvægi við Guðlaug Þór Þórðarson á Alþingi! Og í öðru lagi átti R-listinn auðvitað sinn fulltrúa í þingframboði þar sem Helgi Hjörvar var þegar kominn á lista Samfylkingarinnar og verður ofar en Ingibjörg Sólrún! En það tókst engum fréttamanni að muna. – Og ef einhver annar en fréttamaður áttaði sig ekki strax á dellunni í þessari uppspunnu ástæðu Ingibjargar Sólrúnar – að hún sé að fara í þingframboð til að sinna borgarmálunum betur – hver er ennþá skilningslaus þegar það bætist við að hún lætur frekar af embætti borgarstjóra en hætta við framboðið! Ætli það megi ekki fara að spyrja fréttamenn spurningar Völuspár, vituð ér enn – eða hvað?
Og nú segir Ingibjörg Sólrún að hún ætli frekar að hætta sem borgarstjóri en „gefa frá sér þau sjálfsögðu réttindi að taka sæti á lista“! Já, þetta gæti nú hljómað sanngjarnt í eyrum fólks – sem væri nýkomið til Jarðarinnar eftir langa dvöl á Júpíter. Þeir sem hins vegar hafa verið hér á Jörðu undanfarna mánuði vita vel hver hafði af Ingibjörgu Sólrúnu þessi réttindi. Það var hún sjálf. Menn geta alveg sagt að hún hefði ekki átt að lofa kjósendum og samstarfsmönnum því sem hún lofaði sýknt og heilagt. En hún gerði það. Hún gaf loforð og skýrar yfirlýsingar og það var vegna þessara loforða sem fjöldi fólks kaus R-listann og það var vegna þessara loforða sem framsóknarmenn og vinstri-grænir börðust við hlið Ingibjargar Sólrúnar síðastliðið vor. Svokallaðir samstarfsmenn Ingibjargar Sólrúnar í borgarstjórn hafa undanfarið ekki gert annað en að biðja hana um að standa við þau loforð sem hún hefur svo ítrekað gefið. Það eru nú allir afarkostirnir. Það er hún ein sem kom sér í þá stöðu sem hún nú er í. Það er hún ein sem hefur „gert sér ókleift“ að starfa áfram sem borgarstjóri. Framsóknarmenn og Vinstri-grænir sögðu hvað eftir annað að hún gæti verið borgarstjóri áfram ef hún aðeins stæði við loforð sín um að sinna því starfi en reyna ekki einnig að komast á þing. Það voru ekki þessir flokkar sem hröktu Ingibjörgu Sólrúnu frá völdum, það gerði hún ein og óstudd.
Og þetta er kjarni málsins. En ekki það hvort hún Ingibjörg sé ekki sár. Hvernig er hægt að sjá það ekki það sem blasir við?