Mánudagur 16. desember 2002

350. tbl. 6. árg.

Þá er loksins komið að því. Menn þurfa að kveðja stjórnmálamanninn Al Gore eftir áratuga basl hans við að koma sér í embætti forseta Bandaríkjanna. Hann ætlar ekki að leita eftir stuðningi sem forsetaframbjóðandi demókrata árið 2004. Gore virðist loks hafa áttað sig á því að sumir menn eru betri án embættis en í því. Kannski hefur hann lært eitthvað af því að fylgjast með Jimmy Carter. Kannski fullnægir það metnaði hans nú að vera sjálfskipaður faðir Internetsins.

Síðustu skoðanakannanir höfðu sýnt að stuðningur við Gore var kominn ofan í 19% sem er svipaður stuðningur og Nixon naut þegar hann sagði af sér. Sömu kannanir sýna hins vegar mikinn stuðning við George W. Bush forseta og benda allar til að Bush hefði haft öruggan sigur á Gore að tveimur árum liðnum. Bandaríkjamenn virðast með öðrum orðum fegnir að Bush fór með sigur af hólmi í hinum tvísýnu kosningum fyrir tveimur árum.

Ekki er hægt að segja að Vefþjóðviljinn muni sakna stjórnmálaþátttöku Gore þótt eftir eigi að koma í ljós hver leysir hann af hólmi sem forsetaefni demókrata. Gore er einn af þeim sem trúir á sértækar aðgerðir ríkisvaldsins. Ólíkt George W. Bush sem boðaði almenna skattalækkun fyrir forsetakosningarnar vildi Gore lækka skatta á ákveðna hópa. Gore vildi aukna miðstýringu og ríkisforjá í menntamálum andstætt keppinauti sínum. Síst af öllu er þó eftirsjá af framlagi hans til umhverfismála en þar hefur hann gengið einna lengst bandarískra stjórnmálamanna í að mála skrattann á vegginn og var til að mynda einn fárra sem studdi Kyoto samninginn um losun gróðurhúsalofttegunda. Gaf hann jafnvel út bók, Earth in the Balance, með heimsósómapælingum sínum um umhverfismál þar sem því er lýst ófögrum orðum hvernig við erum að þurrausa auðlindir jarðar og drekkja henni í sorpi.