Þriðjudagur 17. desember 2002

351. tbl. 6. árg.

Það er ágætt ef verslanir bjóða upp á ódýran varning. Það er hins vegar verra ef þær taka að sérhæfa sig í ódýrum málflutningi. Undanfarnar vikur virðist verslunin Hagkaup hafa fært sig yfir í málflutning af billegra taginu og er heldur leitt til þess að vita. Sýningin hófst með undarlegum heilsíðuauglýsingum þar sem lofuð var þingsályktunartillöga Páls Magnússonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins, þess efnis að athugaðir skyldu kostir og gallar þess að fella niður virðisaukaskatt af barnafötum. Var í auglýsingunum birt mynd af Páli – það er að segja mynd af frétt þar sem birt hafði verið mynd af Páli – og borið mikið lof á hina snjöllu tillögu hans. Hagkaup voru bara allt í einu farin að auglýsa að með því sem í raun er ekki ekki annað en tilgerðarleg lýðskrumstillaga – tillaga um almenna athugun á sértækri skattatilfærslu – væri þessi varaþingmaður orðinn helsti velgjörðamaður íslenskrar alþýðu.

Sjálfsagt hefur einhver haldið að þarna hefði bara aðeins slegið út í fyrir kaupmönnunum. Eða að auglýsingastjórinn væri frændi Páls eða eitthvað; þessi auglýsingaherferð hefði verið ævintýri sem ekki yrði endurtekið. En því er þá ekki að heilsa. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kom heilsíða frá sömu verslun og heldur verri en barnafataauglýsingarnar. Nú vildi hún fá sérstakar skattareglur um íslenska tónlist og beitti málflutningi sem ekki er víst að einu sinni „Páll Magnússon þingmaður“ hefði getað hugsað upp.

„Er íslensk tónlist klám?“ var spurt í risafyrirsögn og bætt við að „skattlagning virðisauka á erlend tímarit með vafasömu efni [væri] aðeins 14 % á meðan tónlist ber 24,5 % vsk. Þetta [væri] ekkert vit, ekki síst vegna þess að íslensk tónlist [væri] hreint ekkert klám!“ – Og rétt er það, það er innheimt lægra virðisaukaskatthlutfall af bókum og tímaritum, þar með töldum þeim sem flytja efni sem þessari ákveðnu verslun þykir vafasamt, en flestum öðrum vörum. En með þessari röksemdafærslu mætti fá sömu sérskattareglu fyrir allar aðrar vörur; bara að spyrja hvort einhver tiltekin vara sé klám og þegar það svar fæst að hún sé nú ekki klám, að heimta þá að hún njóti ekki verri skattareglna en „blöð með vafasömu efni“.

Nú er Vefþjóðviljinn þeirrar skoðunar – eins og mörgum lesendum er sennilega ljóst – að lækka beri skatta verulega og er virðisaukaskattur þar vitaskuld ekki undanskilinn. En af því leiðir ekki að blaðið sé hlynnt undanþágum eða sérreglum eins og gilda til dæmis um bækur og sem Hagkaup og hljómplötuframleiðendur vilja að gildi um hljómplötur. Eins og blaðið hefur áður sagt er það andvígt því að hið opinbera noti skattkerfið til að stýra neyslu borgaranna. Ríkið á ekki að hygla einum varningi á kostnað annarra. Hvort sem það eru bækur, hljómplötur, fótboltar, borðbúnaður, einglyrni eða heflar, þá eiga sömu reglur að gilda um allar vörur. Og skatthlutfallið á að lækka. En það á að fækka undanþágunum en ekki fjölga þeim. Og engu breytir þó einhver hagsmunahópur telji sjálfan sig selja fínni vöru en eitthvert vafasamt efni sem eitthvert vafasamt fólk er að kaupa í einhverjum vafasömum tilgangi.

Ábending Hagkaupa hefur hins vegar einn kost. Hún minnir á að það er óeðlilegt að mismunandi reglur gildi um virðisaukaskatt af bókum og hljómplötum. Ábending Hagkaupa ýtir vonandi á það að virðisaukaskattur af bókum og tímaritum verði sá sami og af öðrum vörum.