Helgarsprokið 15. desember 2002

349. tbl. 6. árg.

Eitt kvikmyndahúsanna á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti á dögunum að það væri að taka í notkun búnað sem kæmi í veg fyrir að símasamband næðist í sýningarsölum þess. Munu gestir því hvorki geta tekið við né hringt sín sínauðsynlegu símtöl á meðan á sýningu mynda stendur, og verða því að finna önnur ráð til að opinbera mikilvægi sitt fyrir öðru fólki. En varla hafði Morgunblaðið greint frá þessari nýbreytni þegar Ríkisútvarpið hafði fundið mann sem mundi vera forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og hann ætlaði nú að athuga þetta mál. Var haft eftir forstjóranum að hér mætti ekki aðeins horfa á réttindi kvikmyndahússins heldur einnig réttindi gesta þess og réttindi símafyrirtækjanna.

„Ef menn vita að í tilteknum sýningarsal næst ekki símasamband, en fara þangað samt, nú þá hafa menn augljóslega afsalað sér öllum hugsanlegum „rétti“ til að vera í símasambandi.“

Kemur þetta orð enn og aftur. Réttindi. Það þarf að huga að réttindum kvikmyndahúsagesta og það þarf að huga að réttindum símafyrirtækjanna. Enn og aftur eru einhverjir komnir með „réttindi“ sem enginn veit hvaðan eru komin. Nú á tímum verður það sífellt algengara að menn telji sig eiga rétt á því sem væri þeim til þæginda. Maður vill geta tekið við símtali hvar sem hann er staddur, og þá á hann bara rétt á því. Það er miklu betra fyrir símafyrirtæki að menn nái símtölum um það hvar sem er, og þá á fyrirtækið allt í einu einhver réttindi. Nú er reyndar rétt að taka fram, að forstjórinn ætlaði bara að skoða málið og líta á réttindi símafyrirtækjanna og gestanna, en engu að síður er rétt að spyrna við fótum.

Hvernig er það annars, er nokkur maður neyddur til að fara í bíó? Gott og vel, ef kvikmyndahúsaeigendur sækja fólk með valdi og halda því nauðugu í bíósölum sínum, þá er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af „réttindum kvikmyndahúsagesta“, en ef menn fara sjálfviljugir í bíó, þá hafa menn einfaldlega gengist undir þær reglur sem þar gilda. Ef menn vita að í tilteknum sýningarsal næst ekki símasamband, en fara þangað samt, nú þá hafa menn augljóslega afsalað sér öllum hugsanlegum „rétti“ til að vera í símasambandi. Og þó eitt fyrirtæki semji við einhvern mann um að taka við og koma símtölum hans áfram, þá eignast það fyrirtæki engan rétt til að senda um húsakynni annarra. Hugleiðingar um réttindi gesta og símafyrirtækja eru bara misskilningur.

Og þetta á við um margt annað. Skýrt dæmi eru tóbaksvarnarlögin þar sem misskilningur af þessu tagi í bland við taumlausa frekju og eigingirni hefur ratað inn í löggjöf. Þar hafa misskilningsmenn, frekjur og ofstækismenn sameinast um hugtakið „rétt til reyklauss lofts“ og notað það til að setja fólki allskyns skorður við því hvernig það má nýta sínar eigin fasteignir. Þannig eru veitingahúsaeigendum settar fjölmargar reglur um það hvar í þeirra eigin húsum þeir megi leyfa reykingar og hvar ekki. Þá er eigendum fjölbýlishúsa er bannað að reykja hér og hvar í eignum sínum og engu breytir þó allir í húsinu vilji reykja! Og ef einhver vill verja það sem eftir er af eignarrétti borgaranna þá kemur yfirlætislegt liðið með frasana sína um „rétt til reykleysis“. Sumt af þessu liði hefur beinlínis mætt í sjónvarpsþætti og talað um að því finnist bara „ógeðslegt“ að finna tóbakslykt af fötum sínum daginn eftir gott kvöld á börunum. Og frekjan er slík að þessu fólki þykir þetta vera réttlæting fyrir því að skerða ráðstöfunarrétt annarra yfir fasteignum sínum!

Ýmsir aðrir  en ET þurfa mjög nauðsynlega að  hringja heim úr bíói.

Hér á það sama við og með kvikmyndahúsin. Ef menn fara sjálfviljugir inn á veitingahús eða önnur húsakynni annarra, þá hafa þeir einfaldlega gengist undir þær reglur sem þar gilda. Það er enginn neyddur á barina, það á nákvæmlega enginn heimtingu á því að nokkur annar maður reki krá þar sem er „reyklaust svæði“. Og það bannar enginn þessu fólki að opna sjálft slíkan stað. Reglur um reykingar eða engar reykingar í húsum fólks eru einfaldlega brot á eignarrétti þess og fá mjög tæplega staðist.

Eitt er dæmigert við þau viðbrögð sem urðu þegar ný tóbaksvarnarlög voru sett á síðasta ári. Tvennt í þeim var afar hæpið svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í fyrsta lagi þær hömlur sem settar voru við ráðstöfunarrétti fólks á eigum sínum og svo bann sem sett var við allri þeirri umfjöllun um tóbak sem ekki væri ætluð til þess að vara við skaðsemi þess. En það var alveg dæmigert að fjölmiðlamenn sáu ekkert athugavert við hið fyrra en þegar kom að því síðara þá var nú annað uppi á teningnum. Þá voru nefnilega komin lög sem gátu valdið þeim sjálfum óþægindum. Hið sama gerist nú innan Evrópusambandsins þar sem fjölmiðlar hafa kvartað hástöfum yfir nýjum reglum sem banna tóbaksauglýsingar í fjölmiðlum en hafa minni áhyggjur af öllum hinum frelsisskerðingunum sem tóbaksvarnarofstækisfólkið stendur fyrir.

Já og talandi um tóbaksreglur Evrópusambandsins. Þær voru samþykktar á dögunum þrátt fyrir að tvö aðildarríki væru andsnúin þeim. Og þessi ríki sem nú sitja uppi með þessar reglur sem þau greiddu atkvæði gegn, hvaða ríki eru það? Það eru líklega einhver áhrifalítil örríki, því eins og menn vita þá myndu Íslendingar hafa gríðarleg áhrif ef þeir gengju í Evrópusambandið, svo þetta eru sjálfsagt einhver ríki sem minna eiga undir sér en Íslendingar. Já það má vera, en reglur þessar voru sem sagt samþykktar gegn mótatkvæðum Bretlands og Þýskalands. Einkum voru Þjóðverjar á móti reglunum og telja að þær muni hafa mjög slæmar afleiðingar í Þýskalandi. En það verður að hafa það, varla vilja menn að Þjóðverjar ráði því hvaða reglur gilda í Þýskalandi? Nei því hljóta þeir í Brussel að ráða eins og öðru.

Þangað til Ísland gengur í Evrópusambandið. Þá breytist það sko.