Mánudagur 11. nóvember 2002

315. tbl. 6. árg.

rslitin í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina eru ekki aðeins þeim fylkingarmönnum vonbrigði sem töldu að færa mætti flokkinn inn á miðjuna með hæiflegri endurnýjun í þingliði hans. Úrslitin eru einnig verulegt áhyggjuefni fyrir Steingrím J. Sigfússon og vinstrigræna félaga hans. Með því að hafa hvarvetna harða vinstrimenn í forystu er Samfylkingin að efna til baráttu við vinstrigræna fremur en ríkisstjórnarflokkana. Svo langt gengu Samfylkingarmenn í þessa veru að þeir höfnuðu báðum frambjóðendunum sem hinn marglofaða frjálslyndishetja Jón Baldvin Hannibalsson mælti sérstaklega með að þeir kysu. Það er hvorki tangur né tetur eftir af gamla Alþýðuflokknum í Reykjavík.

Eins og menn hafa heyrt um nokkra hríð hefur Samfylkingin það helst til málanna að leggja að skipta þurfi um ríkisstjórn til þess eins að skipta og endurnýja. Fá nýtt og ferskt fólk. Aðrar ástæður eru ekki nefndar. Ráðherraefni Samfylkingarinnar í þriggja flokka vinstristjórn að loknum næstu kosningum eru augljóslega Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Margrét Frímannsdóttir. Samtals hafa þau setið 60 ár á Alþingi. Segiði svo að Alþingi sé ekki rétti staðurinn til að fríska sig upp.