Ígær kom út ný ævisaga skáldsins Stephans G. Stephanssonar og var talsvert sagt frá henni í fréttum strax á útgáfudegi, enda Stephan með fremstu skáldum íslenskum á sinni tíð. Fréttamenn ræddu meðal annars við höfund bókarinnar, Viðar Hreinsson bókmenntafræðing, og spurðu hann vitaskuld hvort saga Stephans ætti erindi við nútímalesendur. Jú, ótrúlegt en satt, höfundurinn áleit það og tók sérstaklega fram að andi ljóða skáldsins væri mikilvægur til mótvægis við þá „nýfrjálshyggju“ sem nú væri ríkjandi. Ekki útskýrði bókmenntafræðingurinn þessa nýfrjálshyggju-kenningu sína sérstaklega og var ekki krafinn um það heldur. Sem kannski var eins gott því honum hefði þá sjálfsagt orðið örðug úrlausn. Það er einfaldlega ekki svo að frjálshyggja, nýfrjálshyggja, síðfrjálshyggja, miðframfrjálshyggja eða póstfrjálshyggja ráði ríkjum á Íslandi eða annars staðar.
Jújú, fjölmargt hefur gengið í frjálsræðisátt á Íslandi undanfarinn áratug og vonandi heldur sú þróun áfram án þess að nútímalegum vinstri mönnum takist að bregða fæti fyrir hana. En á Íslandi situr ekki frjálshyggjustjórn og hefur ekki gert. Ef bókmenntafræðingurinn vildi verja kenningu sína með því að benda á að ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins eru frjálslyndari en vinstri stjórnir þá væri það rétt út af fyrir sig, en sá sem segir að „nýfrjálshyggja“ ríki á Íslandi, sá maður fer með þann hálfsannleik sem einu sinni var kallaður óhrekjandi lygi.
Það er hins vegar rétt að síðastliðinn áratug hefur margt gengið í frjálsræðisátt. Ráðamenn síðustu tíu ára hafa markvisst minnkað völd sín og áhrif – ríkisfyrirtæki hafa verið seld eða lögð niður og alls kyns ný lög setja hömlur á notkun ríkisins og veita borgurunum fjölmörg ný réttindi. Frelsi hefur verið veitt á ýmsum sviðum sem áður voru lokuð öðrum en ríkinu. Fyrir fimmtán árum reyndu íslenskir vinstri menn allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir að aðrir en ríkið fengi að senda út sjónvarps- eða útvarpsefni. Í dag láta vinstri menn eins og þeir sjálfir séu brjóstvörn frjálsra fjölmiðla. Fyrir örfáum árum reyndu íslenskir kratar – svokallaðir „nútímalegir jafnaðarmenn“ – allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir einkavæðingu banka. Nú hafa þeir hins vegar komið sér upp alls kyns frösum um að „ríkið eigi nú ekki að standa í samkeppnisrekstri“. Fyrir aðeins örfáum árum töldu vinstri menn gersamlega fráleitt að aðrir en ríkið veittu símaþjónustu. Nú kvarta þeir sumir yfir því að einkavæðing Landssímans hafi ekki gengið eftir.
En hvað, er þá ekki frjálshyggja – eða kannski nýfrjálshyggja – ríkjandi? Nei, svo er ekki. Það hefur margt gengið í frjálsræðisátt og ef vinstri menn komast ekki í aðstöðu til að stöðva þróunina þá mun hún halda áfram. En það hefur margt annað gengið í stjórnlyndisátt. Ef frjálshyggja væri ríkjandi á Íslandi yrðu ekki lagðir tugir milljarðar króna á hverju einasta kjörtímabili í fæðingarorlof fyrir tekjuhæstu stéttir landsins. Það væri ekki bannað að tala um tóbak. Það væri ekki bannað að reykja á veitingahúsum. Það yrði ekki byggt ríkistónlistarhús fyrir sex til tíu milljarða króna. Höfuðborgin hefði ekki tapað tveimur milljörðum króna á undarlegu ljósleiðarafyrirtæki. Skattprósentur ríkis og sveitarfélaga væru gjörólíkar þeim sem hinn almenni maður býr við nú. Tollar heyrðu sögunni til. Ekki yrði varið milljörðum til niðurgreiðslna búvara. Forstjóri Samkeppnisstofnunar væri ekki yfirforstjóri Íslands. Þeir seldu áfengi sem vildu. Einkadans væri ekki bannaður. Áhugamenn um íþróttir yrðu sjálfir að greiða fyrir leikvanga sína en gætu ekki byggt þá á kostnað skattgreiðenda. Já og Ísland hefði ekki opnað sendiráð í Mósambik.
Í ljóðum Stephans G. Stephanssonar er margt að finna sem má verða hverjum læsum manni til ánægju. En andóf við framgangi frjálslyndra viðhorfa er ekki það sem mest er áríðandi í þjóðfélagsumræðu dagsins. Það er þvert á móti mikilvægt að halda áfram í átt til meira frjálslyndis; færri reglna, lægri skatta og meira frelsis. Þannig má bæta lífskjör fólks og umfram allt gera leikreglurnar réttlátari. Og þar er þó nokkuð sem vinnst.