Samfylkingin, sem álítur sig annan höfuðstjórnmálaflokk þjóðarinnar, hélt nokkur prófkjör í gær og hafa niðurstöðurnar verið mikið í fjölmiðlum enda gríðarstórir atburðir á ferð. Þannig kusu meira en þrjú þúsund Reykvíkingar í prófkjöri flokksins í höfuðborginni enda var „geysilegur áhugi á prófkjörinu“ og „gríðarleg smölun“ svo vitnað sé í hrifna fréttamenn. Eftir prófkjörið hefur það sama verið uppi á teningnum og ekki annað að heyra en fréttamenn séu ennþá hrifnir. Þannig gera þeir enga athugasemd þegar Össur Skarphéðinsson formaður flokksins fer í viðtal eftir viðtal og fullyrðir að niðurstaða prófkjörsins sé sérstök „traustsyfirlýsing“ við forystu flokksins. Enginn virðist taka eftir því að formaðurinn sem bauð sig einn fram í efsta sætið gerði varla meira en fá helming atkvæða. Eða svo ekki sé talað í hálfkveðnum vísum: Atkvæði greiddu hvorki fleiri né færri en 3.605. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, náði efsta sætinu með 1.989 atkvæðum sem segir öllum öðrum en fréttamönnum að 1.616 flokksmenn hafi ekki stutt Össur í efsta sætið. Það eru tæplega 45 % flokksmanna. Og hvaða stuðning ætli Össur eigi þá utan flokksins.
„Jakob Frímann kvaðst berjast fyrir auknum markaðsáherslum en hans sjónarmið urðu algerlega undir í Samfylkingunni eins og alltaf þegar á reynir. Það voru sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem Samfylkingin valdi í gær.“ |
Össur hefur sagt fleira spaklegt. Í þeim kjördæmum sem niðurstaða í prófkjörum Samfylkingarinnar liggur fyrir varð hún undantekningarlaust sú að sitjandi þingmenn urðu efstir en nýgræðingar ráku lestina. Össur var spurður um þetta, og af alkunnri dómgreind sinni taldi hann það til marks um, og haldið ykkur nú, „kynslóðaskipti“! Það varð nákvæmlega engin endurnýjun, allir þingmenn sem vildu vera áfram – það er að segja allir nema Svanfríður Jónasdóttir, þeir urðu efstir. Nýja blóðið, það rak lestina. Og reyndar er ekki útséð með Svanfríði því eins og menn muna þá tapaði hún fyrir Sigbirni Gunnarssyni í prófkjöri Samfylkingarinnar í norðurlandskjördæmi eystra fyrir síðustu kosningar, og af því Samfylkingarlýðræðið er eins og það er þá varð Svanfríður samt í efsta sæti listans en sigurvegarinn Sigbjörn alls ekki á listanum. Enginn skyldi því afskrifa Svanfríði því sú sem verður efst eftir að hafa tapað, ja hvar verður hún eftir að hafa bara alls ekki verið með?
Ef saman yrði dregið hvað upp úr stendur í niðurstöðum prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík þá yrði það sennilega eitthvað á þá leið að flokkurinn og forysta hans hafi tapað og sá eini sem geti komist nálægt því að bera höfuðið hátt sé Jóhanna Sigurðardóttir sem stóð af sér enn eina atlögu þeirra sem telja sjálfa sig nútímalega en hana steingervða. Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem stóð á bak við framboð Bryndísar Hlöðversdóttur gegn Jóhönnu. Sú atlaga þeirra mistókst herfilega og virðist stöðumat þeirra stallsystra ekki alveg í samræmi við það sem stuðningsmenn þeirra gefa tíðum í skyn. En stuðningur Ingibjargar Sólrúnar við Bryndísi er ekki það eftirtektarverðasta við framkomu borgarstjórans í prófkjörinu. Það eru ekki orð Ingibjargar Sólrúnar um Bryndísi sem segja mesta sögu um núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Það er þögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um flokksformann sinn, Össur Skarphéðinsson – sem auk þess er svili hennar – sem segir meira en mörg orð geta gert.
Sennilega muna allir eftir leikritinu sem leikið var í haust. Þá lagðist Ingibjörg Sólrún að sögn undir feld til að íhuga það hvort hún ætti að láta borgarstjórn Reykjavíkur lönd og leið og leiða Samfylkinguna í komandi þingkosningum. Ekki virtist Ingibjörg Sólrún einu sinni velta því fyrir sér að fyrir var formaður í flokknum, áðurnefndur svili hennar Össur Skarphéðinsson. Hefur Össur eflaust átt skemmtilega daga á meðan menn veltu fyrir sér hversu ómögulegur þessi formaður væri, úr því Ingibjörg Sólrún velti því svona mjög fyrir sér að ganga á bak margítrekaðra orða sinna og skilja Stefán Jón, Alfreð og Dag eftir við kjötkatlana í ráðhúsinu. Og þegar Ingibjörg Sólrún guggnaði á endanum, þá gerði hún það án þess að segja eitt einasta jákvætt orð um Össur Skarphéðinsson. Í prófkjörinu í gær, þar sem Össur barðist fyrir pólitísku lífi sínu, að minnsta kosti fyrir formennsku sinni, þá varð hann að gera það án minnsta stuðnings svilkonunnar.
Gamanlaust, það þarf ekki að segja neitt um pólitíska vigt formanns Samfylkingarinnar. Það vita flestir hve mikið mark er tekið á honum, hversu mikill forystumaður hann er. Prófkjörið í gær var hans tækifæri til að sýna að hann nyti í raun stuðnings, að tilraunir hans til að breyta ímynd sinni hefðu borið árangur, en allt kom fyrir ekki. Hann var einn um að bjóða sig fram í fyrsta sæti en rétt náði helmingi atkvæða. Og Ingibjörg Sólrún gat ekki séð af einu jákvæðu orði sem hefði getað styrkt Össur. Sem kannski kemur ekki á óvart. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og stuðningsmenn hennar hafa látlaust reynt að grafa undan Össuri til að auðvelda henni að taka sjálf við formennskunni.
Reyndar er það ekki aðeins Ingibjörg Sólrún sem ekki er hrifin af formanni Samfylkingarinnar. Annað ídol á Samfylkingarbænum, Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum formaður Alþýðuflokksins, skipti sér af prófkjörinu og lýsti stuðningi sínum við tvo frambjóðendur. Og myndi nú einhver halda að formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, fyrrum samráðherra hans fyrir Alþýðuflokkinn hefði verið annar þeirra. Ó nei. Það voru tveir frambjóðendur sem Jón Baldvin sá ástæðu til að styðja. Ágúst Ágúst Ágústsson, sem varð áttundi , og Jakob Frímann Flygenring sem varð nítugasti og þriðji eða svo.
Talandi um Jakob Frímann þá er ekki hægt að neita því að honum og hans hugmyndum var alfarið hafnað í prófkjörinu. Og segiði svo að miklar auglýsingar nái ekki augum fólks! Jakob Frímann kvaðst berjast fyrir auknum markaðsáherslum en hans sjónarmið urðu algerlega undir í Samfylkingunni eins og alltaf þegar á reynir. Það voru sjónarmið Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem Samfylkingin valdi í gær. Að minnsta kosti sjónarmið Jóhönnu því erfiðara er að fullyrða um hvaða sjónarmið Ásta Ragnheiður hefur í raun. Sú trausta kona starfar nú í sínum þriðja eða fjórða stjórnmálaflokki, eftir því hvernig á það er litið, en Ásta Ragnheiður vann á sínum tíma það afrek að vera á sama degi kjörin í miðstjórn Framsóknarflokksins á landsfundi og valin frambjóðandi Þjóðvaka á stofnfundi þess hlálega flokks. En þó þannig sé stundum erfitt að vera viss um að Ásta Ragnheiður standi fyrir önnur sjónarmið en þau að vilja vera á þingi, þá hélt hún velli eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar í prófkjörinu.
Sennilega myndu fréttamenn gera meira úr því ef nýjabrum annarra flokka tapaði alls staðar fyrir sitjandi þingmönnum, en látum það vera. Þetta er samt meira áberandi með Samfylkinguna en hefur verið með aðra flokka þar sem margir nýir menn sem sárlega hefur vantað vinnu reyndu nú fyrir sér. Reyndar var það svo að ýmsir voru farnir að tala um skrifstofu Samfylkingarinnar sem „miðstöð fólks í atvinnuleit“ en það fór sem sagt eins og það fór. Reyndar er hugsanlegt að nýr maður bætist við í Reykjavík þar sem þar verður þingmönnum fjölgað, en sá nýi maður yrði þá varamaðurinn ferski, Mörður Árnason, sem myndi færa ferska strauma inn í þingflokk Samfylkingarinnar.
Gott og vel, Vefþjóðviljinn er ekki sérstaklega hrifinn af Samfylkingunni og lái blaðinu það hver sem vill. Kannski álítur einhver að vegna þess hafi blaðið óþarflega neikvæða skoðun á prófkjöri flokksins. En þá má á móti spyrja, hver er reiðubúinn til að mótmæla því sem blasir við?
* Þátttakan í prófkjörinu í Reykjavík varð afar lítil miðað við allt tilstandið. Rúmlega þrjú þúsund manns eftir stórfelldar auglýsingaherferðir og smalanir.
* Formaður flokksins, sem nauðsynlega þurfti á traustsyfirlýsingu að halda, hann rétt náði helmingsfylgi og það án þess að nokkur sækti að honum.
* Vonarstjarnan Bryndís Hlöðversdóttir – með fulltingi annarar vonarstjörnu og ekki daufari – gerði árangurslausa tilraun til að þoka Jóhönnu Sigurðardóttur úr forystunni. Flokkurinn mun því hafa á öðrum oddinum og sem ráðherraefni Jóhönnu Sigurðardóttur sem er enn með jafn mikið á hornum sér og þegar hún var fyrst kjörin á þing fyrir aldarfjórðungi.
* Stuðningsleysi annarra forystumanna við formann flokksins varð enn meira áberandi. Er nú með öllu útilokað að breiða yfir það með fölskum yfirlýsingum úr því enginn gat stutt formanninn þegar hann raunverulega þurfti á því að halda.
* Nýi maðurinn, stuðmaðurinn, sem átti að draga nýja fylgið að flokknum, hann rétt hafði Birgi Dýrfjörð.
* Ef ný kjördæmaskipun verður til þess að Samfylkingin fær möguleika á að bæta við sig þingmanni í Reykjavík, þá yrði viðbótin og ferskleikinn, maður nýja tímans… Mörður Árnason.
* Og ef skoðanakannanir verða Samfylkingunni hagstæðar í kosningabaráttunni þá munu menn sjá að hugsanlegt er að annar nýr og mætur maður komist að. Helgi Hjörvar!
Hvernig er það, gengur aldrei neitt hjá Samfylkingunni?