Ef nokkur hefur barist fyrir tengingum bóta og tekna er það Alþýðusamband Íslands. Alþýðusambandið hefur einnig verið fremst í flokki þeirra sem vilja að menn greiði hærra hlutfall launa sinna í tekjuskatt eftir því sem launin hækka. Eftir þessum ráðleggingum hefur verið farið í stórum dráttum undanfarna áratugi. Ýmsar bætur lækka eftir því sem menn bæta við í tekjum og maður með 100 þúsund krónur í laun greiðir 11% af þeim í skatt, maður með 200 þúsund krónur greiðir 24% af þeim í skatt og maður með 400 þúsund krónur greiðir 31% í skatt auk þess sem hann lendir einnig í svonefndum hátekjuskatti. Það er því vissulega innbyggt í skattkerfið að því hærri laun sem menn hafa því hærra hlutfall af launum sínum greiða menn í skatt.
Vegna þessara tekjutenginga í skatta- og bótakerfinu verða til mikil jaðaráhrif. Hver viðbótarkróna sem menn afla verður lítils virði því þá greiða menn bæði hærra skatthlutfall og tapa bótum. Hafa verið lögð fram dæmi um að menn fái aðeins 10 – 20 aura af viðbótarkrónu sem þeir afla sér þegar skerðing bóta og skattheimta hafa komið til frádráttar. Þetta fyrirkomulag letur menn mjög til að afla sér viðbótartekna. Á síðustu árum hafa menn innan Alþýðusambandsins áttað sig á að þetta er óheppilegt ástand. En hver er þá tillaga sambandsins til lausnar á þessu máli? Hvernig vill sambandið draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins? Jú, ef marka má orð framkvæmdastjórans vill sambandið taka upp tekjuskatt í þrepum. Það er að segja til viðbótar við þau óendanlegu mörgu þrep sem eru núverandi kerfi vill ASÍ bæta við þrepum. Í raun er þetta ekki tillaga um annað en að allir fari að greiða hátekjuskatt ofan á núverandi skatt og hann verði mishár eftir því hvaða tekjur menn hafa.