Ígærkvöldi tókst Ríkissjónvarpinu að gera langa frétt um það að Þjóðmenningarhúsið hafi ekki tekið sjónvarpsmönnum opnum örmum þegar þeir vildu komast þangað til að taka upp atriði til að nota í næsta áramótaskaupi, en atriðið var sagt ætlað til að hæðast að fyrrverandi forstöðumanni hússins. Eins og menn muna varð forstöðumanninum töluvert á í embættisrekstri sínum og galt hann fyrir með starfi sínu. Ríkissaksóknari tók málið til sérstakrar skoðunar og þó hann hafi kveðið upp úr með það að ekki væri ástæða til opinberrar ákæru á hendur forstöðumanninum þá þarf ekki að efast um að málið varð manninum til mikils álitshnekkis. Og ekkert við því að segja, honum varð verulega á og þurfti að súpa seyðið af því. En höfundi áramótaskaupsins þykir það greinilega ekki nægilegt heldur verði sérstaklega að gera grín að manninum í áramótaskaupi.
Og hver er þessi höfundur? Er það nokkuð sami maðurinn og á dögunum átti ekki nægilega stór orð af hneykslun yfir „aðförinni“ að vini sínum, heilögum Þorfinni Ómarssyni, forstöðumanninum sem árum saman vanrækti þá skyldu að halda bókhald fyrir sjóðinn sem hann veitti forstöðu? Ætli það þyki ekki líka eiga erindi í áramótaskaupið? Jú ábyggilega!
Og ef einhver heldur að með sérstöku nefndaráliti hafi það svo komið á daginn að forstöðumanni Kvikmyndasjóðs hafi með óréttmætum hætti verið vikið úr starfi þá má geta þess að Páll Hreinsson, prófessor í stjórnarfarsrétti við lagadeild Háskóla Íslands og meginhöfundur stjórnsýslulaganna, hefur bent á að álit umræddrar nefndar sem skipuð var til að fara yfir mál forstöðumannsins var í veigamiklum atriðum í ósamræmi við fyrri álit í sambærilegum málum. Jafnframt benti Páll á að það er beinlínis rangt sem nefndin þó virtist álíta, að forstöðumaðurinn hefði átt sérstakan andmælarétt áður en honum varð vikið tímabundið úr starfi. Þó ýmislegt sé því hæpið í umræddu nefndaráliti þá ákvað menntamálaráðherra að setja forstöðumanninn aftur inn í starf sitt og það meira að segja án þess að veita honum áminningu, og það eins þó nefndin hafi í áliti sínu talið „eðlilegt að að menntamálaráðuneytið kannaði áfram hvort rétt væri að veita Þorfinni áminningu fyrir brot á starfsskyldum“ eins og það var orðað. Það er nú „samsærið“ gegn heilögum Þorfinni.
Eins og auðvitað mun koma fram í áramótaskaupinu, er það ekki?