Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra var dæmdur á dögunum fyrir að hafa með ummælum um vinnubrögð tiltekins íslensks fréttamanns brotið 235. gr. almennra hegningarlaga. Var Árni dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð og fréttamanninum bætur. Hefur þessi dómur vakið ánægju sumra, svo sem annarra fjölmiðlamanna, og norska blaðið Fiskaren hefur krafist afsagnar íslenska sjávarútvegsráðherrans. Þó einhverjum þyki eflaust sem það gagnmerka blað varði lítið um embættisgengi íslenskra ráðherra en krafa þess er svo sem ekki fráleitari en ef Fjarðarpósturinn í Hafnarfirði hefði krafist þess að Haraldur Noregskonungur léti af konungdómi eftir að hafa verið tekinn fyrir of hraðan akstur á dögunum.
„Sigurður kvaðst meira að segja ekki vera sjálfur að bera Kjartan þessum sökum heldur hefði hann sko einungis verið að segja hvað ónafngreindir menn hefðu sagt öðrum ónafngreindum mönnum sem svo hefðu sagt Sigurði hvað hinir fyrri ónafngreindu menn hefðu sagt og það birti Dagur á miðopnu vegna „fréttagildis“ þess.“ |
Hvað um það, undarlegar kröfur Austmanna eru aukaatriði. Það er ýmislegt annað sem vekur athygli í umræðum manna um dóminn yfir Árna Mathiesen. Þannig hefur áðurnefnt stórblað, Fiskaren í Noregi, það eftir Hjálmari Jónssyni, blaðamanni á Morgunblaðinu og formanni Blaðamannafélags Íslands að dómurinn sé „sigur fyrir íslenska blaðamennsku“. Það eru ekki lítil tíðindi ef rétt er eftir manninum haft því hingað til hafa engir verið harðarði á því en íslenskir blaðamenn að í meiðyrðamálum eigi að sýkna og aftur sýkna. Allt annað sé árás á tjáningarfrelsi, prentfrelsi og almenn þægindi blaðamanna. Á þeim bænum hefur hingað til þótt sérstakt lykilatriði að fullyrðingagjörnum fjölmiðlamönnum verði ekki gert að þurfa að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Það þykir alltaf mikil árás á tjáningarfrelsið. En kannski horfir málið allt öðru vísi við þegar það er blaðamaður sem stefnir en stjórnmálamaður sem þarf að færa sönnur á alvarlega ásökun.
Sjávarútvegsráðherra hafði haldið því fram að það brottkast á fiski sem fréttamaðurinn hafði sýnt alþjóð, hefði verið sett á svið. Dóminum mun ekki hafa þótt sem ráðherrann hefði getað sannað þessa fullyrðingu sína og dæmdi hann til refsingar og greiðslu skaðabóta. Og fréttamaðurinn er afar ánægður að sögn, og formaður Blaðamannafélagsins telur þetta sigur íslenskrar blaðamennsku. Svo sérkennilega vill til í máli sjávarútvegsráðherrans og fréttamannsins að það hefur komið fram að skipstjórinn í umræddri veiðiferð hefur borið að brottkastið hafi verið sett á svið, en tveir hásetar hans hafi mætt fyrir dóminn og mótmælt þessu. Af þeim sökum hafi brottkastið ekki verið talið sannað. Sé það hins vegar rétt að skipstjórinn hafi borið á þennan veg, þá er vitaskuld ljóst að ráðherrann talaði ekki út í loftið eins og svo margir gera – og uppskera reyndar lof og prís fyrir!
Ef miðað er við sönnunarmat í refsimáli þá má telja ólíklegt að gegn neitun fréttamanns og háseta hefði verið talið sannað að brottkastið hefði verið sviðsett. Annað mál er svo hvaða sönnunarkröfur eru gerðar í einkamáli, en gott og vel, ráðherrann gat ekki fært óyggjandi sönnur á ásakanir sínar og verður að súpa seyðið af því. Látum það vera, en hvernig passar nú þessi dómur – sem er sérstakur sigur íslenskrar blaðamennsku – við aðra dóma, sem hafa ekki síður verið lofsungnir sem sigrar íslenskrar blaðamennsku?
Fyrir þremur árum birti hið skemmtilega blað; Dagur, miðopnugrein eftir hinn mæta lögmann Sigurð G. Guðjónsson, og tók blaðið sérstaklega fram að greinin væri birt vegna „fréttagildis hennar“. Réðist Sigurðar þar harkalega á Kjartan Gunnarsson, þáverandi formann bankaráðs Landsbanka Íslands, og bar hann alvarlegum sökum. Óþarft er að taka fram að Sigurður færði ekkert sérstakt fram, ásökunum sínum til stuðnings. Kjartani líkaði afar illa að sitja undir ásökunum sem þessum og stefndi Sigurði fyrir meiðyrði. Fyrir dómi færði Sigurður engar sönnur á mál sitt og reyndi það ekki einu sinni. Sigurður kvaðst meira að segja ekki vera sjálfur að bera Kjartan þessum sökum heldur hefði hann sko einungis verið að segja hvað ónafngreindir menn hefðu sagt öðrum ónafngreindum mönnum sem svo hefðu sagt Sigurði hvað hinir fyrri ónafngreindu menn hefðu sagt og það birti Dagur á miðopnu vegna „fréttagildis“ þess. Hæstiréttur, við mikið hrós hér og hvar, fór hins vegar létt með að sýkna Sigurð með þeim orðum að ekki verði „lagt á [Sigurð G. Guðjónsson] að færa fram sönnun fyrir þessum ummælum þar sem það gæti talist óhæfilegum erfiðleikum bundið fyrir hann.“
Nei, tveir hæstaréttardómarar af þremur töldu ekki hægt að gera þá kröfu til Sigurðar að hann færði sönnur á ummæli sín, svona fyrst hann átti erfitt með það. Og þessi dómur þótti mikill sigur prentfrelsis, rétt eins og þegar Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Árna Mathiesen fyrir brot á hegningarlögum þegar honum tókst ekki að sanna með fullnægjandi hætti að Magnús Þór Hafsteinsson hefði sett brottkast á svið.
Fjölmiðlamenn fá sitt ótrúlega oft fram. Embættismenn eins og aðir átta sig á möguleikum fjölmiðlamanna til að hafa áhrif í þjóðfélaginu og er þá nema mannlegt þó þeir vilji fremur gera þeim að en móti skapi? Þeir sem fara að vilja fjölmiðlamanna, þeim er hampað. Þeir sem gera það ekki, rísa jafnvel gegn þeim eins og núverandi ríkislögreglustjóri gerði um árið þegar hann hafði frumkvæði að málshöfðun gagnvart fjölmiðlamanni sem hafði gagnrýnt hann harðlega, þeir eru ákaft gagnrýndir og jafnvel lagðir í einelti. Hver vill það? Hver freistast ekki til að taka þægilegri kostinn? Sýkna fjölmiðlamanninn ef hann er kærður? Sakfella þann sem fjölmiðlamaðurinn kærir? Leyfa fjölmiðlamanninum að halda fram hvaða ósönnuðu gjammi sem er, jafnvel með vísan í „ónafngreinda heimildamenn“, en gera harðar sönnunarkröfur til þeirra sem gagnrýna fjölmiðlamennina?
Nú og svo eru kannski engar svona ástæður að baki. Þetta er kannski alltsaman einfaldlega hrein og klár lögfræði, blind eins og réttlætisgyðjan. Allt bara eðlilegt.
Já kannski.