Laugardagur 2. nóvember 2002

306. tbl. 6. árg.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir þingmaður fyrirspurnarflokksins kvaddi sér hljóðs á Alþingi á dögunum til að þrýsta á um aukin útgjöld ríkisins. Þingmaðurinn beindi tveimur spurningum til viðskiptaráðherra. Annars vegar vildi hann fá svör við því hve miklum fjármunum hefði verið varið árlega til „neytendaverndar“, „neytendafræðslu“ og annarra aðgerða til að „tryggja réttindi neytenda“ hér á landi síðustu fimm ár og svörin skyldu auðvitað vera sundurliðuð, enda væri að öðru kosti heldur ódýrt að sinna erindinu. Hins vegar taldi þingmaðurinn aðkallandi að skattfé yrði varið til þess að svara því hvaða fjárhæð hafi verið veitt til Neytendasamtakanna og í hvaða verkefni þeirri fjárhæð hefði verið varið.

Ráðherra svaraði í fyrradag og í svari hans við fyrri spurningunni kemur fram að ýmis ráðuneyti hafa alls kyns útgjöld vegna svokallaðra neytendamála og má þar nefna að fyrir fjórum árum voru greiddar 1.247.000 krónur „til aðlögunar norræns kennsluefnis um neytendafræðslu í skólum“. Þetta eru þó smámunir í samanburði við þær milljónir sem fara í Samkeppnisstofnun, en eins og fram kemur í svari ráðherra hafa framlög til þeirrar stofnunar hækkað úr 89 milljónum króna árið 1998 í 136 milljónir króna í ár. Sem kunnugt er hefur þessi stofnun það verkefni helst að hindra frjálsa samkeppni og koma í veg fyrir að þau fyrirtæki sem bjóða neytendum hagstæðustu kjörin fái að njóta sín. Stofnunin vinnur hins vegar að því furðulega verkefni að koma á einhverju fyrirbæri sem kallað er samkeppni og er alls ólíkt frjálsri samkeppni en svipar til einokunar að því leyti að gefin eru fyrirmæli um leyfilega markaðshlutdeild tiltekinna vara á tilteknum markaðssvæðum.

Síðari spurningunni er svarað með því að þulið er upp hver aukning styrkja ríkisins við Neytendasamtökin hefur verið. Eftir „þjónustusamning“ sem ríkið gerði við þessi hálf-opinberu samtök árið 1998 hafa greiðslur ríkisins til þeirra vaxið úr 6,8 milljónum króna í 8,3 milljónir króna í ár – og meira ef taldir eru með ýmsir aukastyrkir vegna ferðalaga og heimasíðugerðar. Á næsta ári er áformað að styrkurinn til þessara ríkisstyrktu neytendasamtaka hækki enn og verði orðinn 8,5 milljónir króna. Hækkunin á styrknum til Neytendasamtakanna er því jafnvel meiri hlutfallslega en almenn hækkun útgjalda ríkisins á þessu tímabili. Af einhverjum ókunnum ástæðum, sem tengjast örugglega alls ekki því að Neytendasamtökin eru á spena ríkisins, hafa þessi samtök ekki sinnt stærsta neytendamáli landsins, en það er lækkun skatta. Lækkun skatta kæmi öllum landsmönnum, sem vitaskuld eru allir neytendur, til góða, en ríkisstyrkt samtök munu seint sinna mikilvægari málum en að kvarta yfir afsláttarkortum einstakra fyrirtækja.

Spurningar stjórnarandstæðinga til ráðherra eru allar á sömu lund; spurt er hversu miklu fé er varið til ákveðinna málaflokka í þeim tilgangi að þrýsta á um aukin útgjöld. Ef stjórnarandstæðingar hefðu raunverulegan áhuga á hag almennings, þar með talið neytenda, myndu þeir láta af þessum leiða kæk og krefja ráðherra um niðurskurð og skattalækkanir.