Miðvikudagur 6. nóvember 2002

310. tbl. 6. árg.

Fyrir nokkrum árum var Raufarhafnarhreppur með stöndugustu sveitarfélögum landsins. Um síðustu mánaðamót gat hreppurinn ekki greitt út laun af eigin rammleik. Samkvæmt fréttum hefur hreppurinn á undanförnum árum tapað tugum milljóna króna á hlutabréfaviðskiptum, en hreppurinn hafði mjög fjárfest í sprotafyrirtækjum þekkingarþjóðfélags nýja hagkerfisins. Sennilega þykir flestum nú sem þessar fjárfestingar hafi verið furðuleg ráðstöfun og forkastanleg. Í raun og veru má segja að yfirvöld á Raufarhöfn hafi tekið fjármuni íbúanna og farið með þá í nokkurs konar fjárhættuspil. Raufarhöfn, eins og önnur sveitarfélög, hefur megintekjur sínar af nauðungargjöldum íbúanna, gjöldum sem ætluð eru til að standa straum af kostnaði við hina og þessa starfsemi sem sveitarfélög sinna, hvort sem frjálslyndum mönnum líkar það nú betur eða verr. En þarna voru peningar hreppsins sem sagt notaðir til að kaupa hlutabréf í Oz.

Ef til vill geta verið einhvers konar rök fyrir því að sveitarfélag eignist hlut í atvinnufyrirtæki á staðnum. Vefþjóðviljinn telur reyndar að slík rök séu ekki nægilega sterk til að réttlætanlegt sé að skattleggja íbúana fyrir kaupunum en gott og vel. Það er skiljanlegt að sveitarstjórnarmenn vilji gera það sem þeir telja í sínu valdi til að koma í veg fyrir að mikilvæg atvinnufyrirtæki komist í þrot og starfsfólkið sitji eftir ráðalaust. En þegar sveitarstjórnarmenn eru farnir suður í þekkingarþorpið til að kaupa bréf í einhverju sprotafyrirtækinu í þeirri von að geta selt þau aftur með gróða síðar, þá er eitthvað allt annað á ferðinni. Í raun og veru hefði alveg eins mátt senda sveitarstjórann til Las Vegas og láta hann setja allt á 22.

Sennilega eru flestir sammála um að sveitarstjórnarmenn á Raufarhöfn hafi hlaupið á sig. En lærdómurinn sem menn mættu draga af þessu undarlega máli er hins vegar ekki sá helstur að sveitarstjórnarmenn eigi að einbeita sér að atvinnuuppbyggingu á heimaslóðum. Lærdómurinn er frekar sá að sveitarstjórnarmenn eiga sem minnst að vera að sýsla með fé borgaranna. Þeir eiga að halda álögum á borgarana sem lægstum svo borgararnir sjálfir geti ráðstafað sínum peningum. Þannig ættu forráðamenn Raufarhafnarhrepps að reyna að hafa sem minnst fé af íbúum hreppsins, en taka ekki með nauðung af þeim peninga þeirra til þess að setja í atvinnufyrirtæki eða Ungmennafélagið Austra. Og þeir áttu ekki heldur að gera Raufarhafnarhrepp að hluthafa í Oz.