Helgarsprokið 20. október 2002

293. tbl. 6. árg.
Kemst þó að seint fari, húsfreyja.
Njáll Þorgeirsson

Þær voru ánægjulegar fréttirnar sem bárust í gær. Ríkið mun selja nær allan hlut sinn í Landsbanka Íslands hf. og verður þessi þekktasti og til langs tíma stærsti banki landsins því að nær öllu leyti í einkaeigu innan skamms. Það samkomulag sem kynnt var í gær var reyndar með fyrirvara um niðurstöðu svo kallaðrar „áreiðanleikakönnunar“ en engu að síður virðist óhætt að gera ráð fyrir að stærsta einkavæðing Íslandssögunnar sé því sem næst í höfn. Þó ýmsum þyki eflaust sem sjálfsagt sé að ríkið láti af bankarekstri þá eru ekki nema örfá ár síðan einkavæðing ríkisviðskiptabankanna þótti næstum óhugsandi. Sést af þessu hversu Íslandi hefur verið gerbreytt á örfáum árum. Það eru aðeins örfá ár síðan Alþýðuflokkurinn, sem þá sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, hindraði með öllu einkavæðingu bankanna og það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn komst í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum árið 1995 sem nokkur skriður komst á þessi mál.

„Það var svo í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem sat árin 1983-1987 sem einkaréttur ríkisins til útvarpssendinga var afnuminn. Og hvað ætli margir Alþýðuflokksmenn hafi stutt það. Eigum við að nefna töluna? Það var nákvæmlega enginn. Núll.“

Það vantar hins vegar ekki að kratar, hvort sem þeir kalla sig Alþýðuflokk, Samfylkingu eða eitthvað annað – tali mikið um frjálslyndi sitt og hversu nútímalegir þeir séu. En þegar til stykkisins kemur þá eru þeir alltaf eins. Það var hinn frjálslyndi Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar sem ekki mátti heyra það nefnt að ríkið seldi viðskiptabanka sína á stjórnarárum „Viðeyjarstjórnarinnar“ 1991-1995. Einkavæðingin fékkst hins vegar samþykkt þegar Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar – en einkum Finns Ingólfssonar – gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Og þetta er engin tilviljun. Hver ætli hafi verið mesti prófsteinninn á raunverulegan vilja stjórnmálaflokkanna til opnara þjóðfélags á síðustu árum? Sennilega er frjálst útvarp og sjónvarp það sem mestu máli skiptir þar, en svo ótrúlegt sem það kann að hljóma þá er aðeins rúmlega hálfur annar áratugur síðan einkaréttur ríkisins til útvarps- og sjónvarpssendinga var afnuminn. Baráttan fyrir afnámi þess banns var að miklu leyti háð af sjálfstæðismönnum en vinstri menn stóðu fast á móti. Það var svo í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem sat árin 1983-1987 sem einkaréttur ríkisins til útvarpssendinga var afnuminn. Og hvað ætli margir Alþýðuflokksmenn hafi stutt það. Eigum við að nefna töluna? Það var nákvæmlega enginn. Núll.

Jón Baldvin Hannibalsson, sem stundum er kynntur sem frelsandi andblær frjálslyndra viðhorfa, hann sat nú á þingi þegar þetta var en honum tókst ekki að styðja frjálst útvarp. Og sömu sögu er að segja af flokkssystur hans, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem reyndar er sjaldnar auglýst sem einhver frjálslyndishetja. Reyndar er svo óþarfi að gera of mikið úr hlut Framsóknarflokksins í þessu máli því aðeins fjórir af fjórtán þingmönnum hans studdu umrætt frumvarp til nýrra útvarpslaga þegar það kom til atkvæða! Í dag þykir eflaust einhverjum ótrúlegt að hugsa til þess að einhverjir hafi barist með kjafti og klóm gegn því að fleiri en ríkið fengju að reka útvarpsstöðvar og þetta hljóti að hafa verið einhverjir aflóga þingmenn sem löngu séu horfnir á braut. En það er nú ekki þannig. Meðal þeirra sem beinlínis greiddu atkvæði gegn frjálsu útvarpi voru menn eins og Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Páll Pétursson. Tveir þeirra eru ráðherrar í dag og hinn er formaður stjórnmálaflokks!

En nýju útvarpslögin náðust í gegn með tímanum þrátt fyrir andstöðu vinstri manna, bæði þeirra sem kalla sig nútímalega og frjálslyndra sem og hinna sem hvorugt þykja vera. Og sama er að segja um ýmis önnur mál sem þetta blað myndi kalla framfaramál. Þó oft virðist ganga hægt og jafnvel í öfuga átt stundum, þá er því ekki að neita að gríðarlega margt hefur áunnist undanfarin ár. Þó óþolinmóðustu menn, einkum í yngri kantinum, telji alltaf allt ganga allt of hægt þá þarf alveg sérstakt sambland af ákafa, ósanngirni og vanþekkingu til að viðurkenna ekki að í meginatriðum hefur mikill árangur náðst undanfarinn áratug, og það jafnt og þétt. Það að nú sé að takast að einkavæða ríkisviðskiptabankanna og það án þess að vinstri menn þori að efna til sama grundvallarágreinings og þeir hafa oft áður talið sér fært, sýnir betur en margt annað hversu miklar breytingar hafa verið gerðar á íslensku þjóðlífi og hversu vel þær hafa reynst.

Þó undanfarinn áratug hafi ótrúlegur árangur náðst á ótrúlegustu sviðum þá er það hvorki svo að allt sé nú í höfn né að ekki hafi verið stigin skref í ranga átt. Þó frelsi hafi verið aukið verulega og allur annar hugsunarháttur sé nú ríkjandi í stjórnarráðinu en áður var, þá ber það oft við að forræðishyggjumenn ná vopnum sínum og teyma hið opinbera í ranga átt. Ofboðsleg eyðslulög, eins og til dæmis fæðingarorlofslögin sem kosta ríkissjóð tugi milljarða króna á hverju einasta kjörtímabili!, og skelfileg ofstjórnarlög, eins og til dæmis samkeppnislögin sem gerðu nokkra kontórista hjá Verðlagsstofnun að nokkurs konar yfirforstjórum Íslands, eru dæmi um að enn er háð mikil barátta í íslenskum stjórnmálum. Vegna þeirrar baráttu er mikilvægt að frjálslyndir menn standi saman og vinni sjónarmiðum sínum brautargengi, jafnt og þétt. Það gera þeir vitaskuld ekki með því að heimta allt þegar í stað og ganga af vitinu í hvert skipti sem eitthvað rekur í ranga átt. Það er ekki þannig sem Íslandi verður þokað lengra í frjálslyndisátt heldur ber frjálslyndum mönnum að standa saman og kynna fyrir landsmönnum sjónarmið sín og þau sterku rök sem fyrir þeim eru. Þannig má halda áfram þeirri þróun sem þrátt fyrir allt hefur miðað svo vel undanfarinn áratug.

Sú barátta vinnst ekki einn-tveir-og-þrír. Vinstri menn eru fjölmargir og áhrifamiklir og þeir reyna eins og þeir geta að hindra breytingar í frjálsræðisátt. Sumir þeirra munu berjast með venjulegum vinstri-rökum og vera sannfærðir um hvert orð, hversu heimskulegt sem það kann að hljóma í eyrum annarra manna. Og allt í lagi með það, þeir sem hlýða á slíka vinstri menn gera það bara upp við sig hvort þeir vilja fylgja þeim eða ekki og geta byggt á því sem sagt er og borið það saman við heilbrigða skynsemi. Verri er hin tegund vinstri manna, þessi sem þykist hafa endurfæðst. Þessir sem endilega vilja einkavæða og gefa allt frjálst. Nema reyndar akkúrat þegar til kastanna kemur. Ákveðin tegund af vinstri mönnum mun nefnilega yfirleitt berjast með þeim rökum sem hún trúir ekki sjálf. Þessir vinstri menn hafa ætíð á hraðbergi ýmsa frasa sem í huga þeirra eru hins vegar ekkert nema frasar. Þeir munu segjast vilja frelsi, framtak og einkavæðingu – nema einmitt þegar reynir á. Þá verður tíminn rangur, aðferðin óskynsamleg og verðið ekki nógu gott.

En alla aðra daga ársins munu þessir vinstri menn reyna að sannfæra fólk að þeir séu nútímalegir og gjörbreyttir.