Valéry Giscard d’Estaing, maðurinn sem leiðir undirbúning að gerð stjórnarskrár fyrir Evrópusambandið, hefur gert gróft uppkast að slíku plaggi. Í uppkastinu, sem líklega verður kynnt í lok mánaðarins, mun vera gert ráð fyrir að með gildistöku stjórnarskrárinnar verði allt kerfi Evrópusambandsins stokkað upp. Í uppkastinu er meðal annars kafli um það að Evrópusambandið geti komið fram sem eitt ríki, en sé ekki aðeins félagsskapur sjálfstæðra ríkja. Gert er ráð fyrir að Evrópusambandinu verði kosið bæði þing og forseti. Í uppkastinu er einnig kveðið á um að þau ríki sem gerast svo ósvífin að hafna því að leysa sig upp og ganga enn einni „Evrópuhugsjóninni“ á hönd, muni einfaldlega ekki fá að vera með í hinni „nýju Evrópu“, sæluríkinu sjálfu.
Hér á landi hefur verið bent á að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins dugi ein sér til að Ísland gæti ekki tekið þátt í þessum félagsskap nema óbeint í gegnum samning á borð við EES-samninginn. Þetta viðurkenna allir í raun, en sumir halda að þeir geti bætt veika pólitíska vígstöðu sína með því að segjast vilja viðræður um aðild til að „sjá hvað okkur muni bjóðast“, þótt fyrir liggi að engar undanþágur bjóðist frá óásættanlegri sjávarútvegsstefnu. En þó að sjávarútvegsstefnan dugi ein sér til að Íslendingar geti ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu er fjarri lagi að hún sé eina ástæðan. Engin ástæða er til að daðra við hugmyndir á borð við þær sem Giscard d’Estaing vinnur að, um aukinn samruna, nýja stjórnarskrá, upplausn þjóðríkja og nýtt Evrópusambandsríki. Í slíku risaríki, þar sem Íslendingar væru langt innan við 0,1% íbúanna og þar sem stór hluti íbúanna gæti varla fundið Ísland á landakorti – hvað þá að þeir þekktu til staðhátta – er ekki mikil von til að hagsmunir landsins verði hafðir í fyrirrúmi við ákvarðanatöku.