Ævesalingarnir. Þeir segjast hafa ruglast, Svíarnir. Þeir hafi óvart greitt atkvæði með því að Ísland fengi að ganga í Alþjóða hvalveiðiráðið. Þeir ætluðu bara að leyfa umræður um inngöngubeiðnina en voru staðráðnir að hafna henni að svo búnu. Nú segjast sænsk stjórnvöld sitja með ráðgjöfum sínum og leita af ákafa að leiðum til að afturkalla þessa ákvörðun og koma Íslandi að nýju úr ráðinu. „Frændur vorir Svíar“ eru því enn við sama heygarðshornið gagnvart Íslendingum og þær vonir sem vöknuðu um hið gagnstæða þegar Svíar virtust styðja aðildarumsókn Íslendinga, hafa fokið út í veður og vind.
Já það er gott að eiga góða að! Nú má hins vegar enginn skilja þessi orð sem svo að Vefþjóðviljinn hafi talið Svía hafa meiri skyldur en aðrar þjóðir til að styðja málstað Íslendinga. Auðvitað eiga Svíar að vera einráðir um það hvaða afstöðu þeir taka til einstakra mála. Enda hafa hvorki þeir né aðrar Norðurlandaþjóðir verið Íslendingum að jafnaði meiri bræður en aðrir í slíku alþjóðlegu samstarfi, og ekkert við því að segja. En hvers vegna að vera að fjölyrða um þetta? Jú, það mætti kannski minnast þessa þegar menn halda langar ræður um það hversu góða daga Íslendingar myndu eiga innan Evrópusambandsins, ef starfsmönnum þess tækist að lokka þá til inngöngu. Því er nefnilega svo oft haldið fram að fyrir utan hin gríðarlegu „áhrif“ sem Ísland hefði á allar þýðingarmiklar ákvarðanir í Brussel, þá myndu „frændur okkar á Norðurlöndum“ auðvitað standa með okkur hvenær sem mikið lægi við. Við værum því ekki einir á báti heldur myndu Svíar, Finnar og Danir jafnan vera til taks hvenær sem mikið lægi við.
Þeir sem hafa fylgst með framgöngu Svía gagnvart frændþjóðinni Íslendingum, til dæmis á vettvangi Alþjóða hvalveiðiráðsins, eða fylgst með aðferðum Norðmanna gagnvart frændþjóðum þeirra, svo sem varðandi fiskveiðistjórnun eða yfirráð Svalbarða, þeir vita hversu djúpur þessi frændskapur er í huga hinna stærri ríkja. Ætli það yrðu ekki aðallega Íslendingar sem fyndu til skyldleika og sameiginlegra skuldbindinga? Ætli frændskapur Íslands og annarra norrænna Evrópusambandsríkja yrði ekki allur á annan veginn, svona eins og vensl Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur virðast stundum vera. Og því miður, ætli það yrði ekki þannig að Ísland tæki sér stöðu Össurar en hin ríkin léku hlutverk Ingibjargar Sólrúnar.