Mánudagur 21. október 2002

294. tbl. 6. árg.

Írar samþykktu Nice-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina og leiðtogar Evrópusambandsins eru hamingjusamir. Og þeir mega vera það. Með harðfylgni hefur þeim tekist að troða þessum samningi upp á Íra, þrátt fyrir alla þá andstöðu sem við samninginn hefur verið. Eins og menn muna er þetta í annað sinn sem Írar eru látnir kjósa um þennan samning, en staðreyndin er sú að þegar Evrópusambandið tapar kosningum þá lætur það kjósa aftur þangað til „rétt“ niðurstaða fæst. Mikið kapp var lagt á að fá Íra til að samþykkja Nice-samninginn og þeir beittir alls kyns þrýstingi. Því var meðal annars haldið fram að ef þeir höfnuðu honum aftur væru þeir að eyðileggja stækkun sambandsins og þar með að spilla fyrir nýfrjálsum þjóðum Mið-Evrópu. Þessum og ýmsum öðrum áróðri var komið til skila með miklum fjármunum, en áætlað hefur verið að þeir sem vildu samþykki hafi haft tuttugu sinnum meira fé til baráttunnar er hinir.

En þrátt fyrir fjáraustur hins opinbera í þessari baráttu var niðurstaðan sú að innan við helmingur tók þátt í atkvæðagreiðslunni og aðeins um 30% kosningabærra manna sagði já, sem óhætt er að segja að sýni ekki brennandi áhuga á Nice-samningnum á Írlandi. Þessar kosningar á Írlandi eru einu kosningarnar sem farið hafa fram í Evrópusambandinu um þennan samning, og þær þurfti sem sagt að endurtaka til að fá samþykki. Öll önnur ríki Evrópusambandsins létu nægja að kjósa um samninginn á þjóðþingum sínum, en írska stjórnarskráin heimilar það ekki. Fróðlegt hefði verið að sjá niðurstöðuna í öðrum löndum, til að mynda Bretlandi, ef stjórnmála- og embættismennirnir hefðu treyst almenningi til að taka ákvörðunina.

Það hefði raunar verið eðlilegt að leyfa almenningi að hafa nokkuð um málið að segja, því með Nice-samningnum er verið að færa aukið vald frá einstökum ríkjum til Evrópusambandsins. Það gerist meðal annars með því að neitunarvald einstakra ríkja var afnumið í yfir þrjátíu málaflokkum, og þar mun því meirihlutinn ráða hér eftir og ríkin verða að sætta sig við niðurstöðu hans. Stuðningsmenn inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa ekki haft fyrir því að benda á þessa þróun innan sambandsins, en staðreyndin er sú að fyrir litlar þjóðir er enn óhagstæðara en fyrir hinar stærri þegar neitunarvald er aflagt. Stórar þjóðir hafa fleiri atkvæði og eiga meiri möguleika á að stöðva mál sem þeim eru ekki að skapi, en litlar þjóðir með fá atkvæði hafa lítið að segja nema geta beitt neitunarvaldi.