Án þess að það sé ætlunin að gera lítið úr þeirri sóun sem á sér stað með rekstri verkalýðsfélaga þá eru sveitarfélög líklega stærstu brennsluofnar verðmæta um þessar mundir. Nú berast fréttir af því að sveitarfélag nokkurt greiði mönnum fyrir að sitja í foreldraráði barnaskóla. Þetta þættu ef til vill ekki tíðindi nema vegna þess að þessir launuðu fulltrúar eru foreldrar barna í viðkomandi skóla. Þetta eru ekki óviðkomandi foreldrar sem sveitarfélagið hefur fengið dæmda í hæstarétti til að hafa áhuga á skólagöngu einhverra barna út í bæ heldur sjálfir foreldrar barnanna við skólana.
Eins og víðfrægt er þá greiðir ríkið mönnum vænar fúlgur í bætur fyrir það atvik að eignast barn. Þessar bætur, nefndar foreldra- og fæðingarorlof, eru raunar með þeim ósköpum að því hærri tekjur sem menn hafa því hærri verða bæturnar. Þeir tekjuhæstu fá hæstu bæturnar en þeir tekjulægstu þær lægstu. Þetta kerfi er í samræmi við kenningar úr velferðarhagfræði Haardes en þar er meginregla að ekki megi vera neitt hámark á þeim bótum sem ríkið greiðir út enda kæmi það í veg fyrir að ríkið gæti aukið útgjöld sín og þá færi nú í verra. Þegar þessum bótum sleppir taka við barnabætur en þar fá menn hins vegar því lægri bætur sem þeir hafa hærri tekjurnar. Að sjálfsögðu er ekki hægt að útiloka að Haardehagspekin hafi áhrif á barnabótakerfið í framtíðinni og þá muni þeir tekjuhæstu fá hæstu barnabæturnar en samkvæmt Haarde er það eðlilegt vegna þess að hinir tekjuhærri greiða hærri skatta.
En hvað um það. Það var þessi launaða seta foreldra í einhverju ráði við skóla barna sinna. Þegar svo er komið að foreldrar kæra sig ekki um að koma að skólagöngu barna sinna án þess að fá greitt fyrir það má velta því fyrir sér hvort ekki sé hreinlegra að framvegis verði þeir sem eignast börn bara á launum í 18 ár hjá hinu opinbera. Hvar endar þetta ef greiða þarf foreldrum fyrir að fylgjast með skólagöngu barna sinna? Hvað með lestur fyrir háttinn á kvöldin? Ferðir á íþróttaæfingar? Dag í húsdýragarðinum? Ætlast menn kannski til að foreldrar geri þetta frítt þegar þeir vilja fá greiðslu fyrir að fylgjast með skólastarfi barna sinna?