Þriðjudagur 24. september 2002

267. tbl. 6. árg.

ÍEvrópu er mikill taugatitringur vegna erfðabreyttra matvæla og svo kallaðir náttúruverndarsinnar hafa ólmast gegn þessari gerð matvæla. Hamagangur þeirra hefur orðið til þess að Evrópubúar trúa því margir að þessi matvæli séu stórkostlega varasöm. Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi árum saman borðað erfðabreytt matvæli, þá breytir það litlu, náttúruöfgamenn tala um Frankenstein-fæðu og tekst að hrella fjölda manna. Þetta væri út af fyrir sig ekki alvarlegt mál ef allir væru jafn efnaðir og Evrópubúar og ef allir hefðu aðgang að jafn miklum matvælum og meðal Evrópubúinn. Staðreyndin er þó sú að svo er alls ekki. Í sunnanverðri Afríku er matur af afar skornum skammti, meðal annars vegna þess að þar fara menn á borð við Robert Mugabe með ofríki gagnvart löndum sínum og halda með því aftur af landbúnaðarframleiðslu.

Við þá ógæfu Afríkubúa að þurfa að þola kóna á borð við Mugabe bætist að þurfa að lifa í sárum sulti við afleiðingarnar af öfgafullri baráttu náttúruverndarsinnanna svo kölluðu. Um þetta er fjallað í nýjasta tölublaði The Economist, en þar er á það bent að með þessari baráttu sinni stuðli græningjar í Evrópu að því að Afríkubúar líði hungur. Náðst hefur það mikill áróður með þessum illa rökstudda áróðri að ríki í Afríku neita jafnvel að taka við matargjöfum frá Bandaríkjunum til að seðja sárasta sult landsmanna, vegna þess að maturinn sé svo hættulegur! Þó er hann ekki hættulegri en svo að Bandaríkjamenn lifa góðu lífi af honum.

The Economist bendir þó einnig á að þó að þessi ástæða fyrir því að neita að taka við innflutningnum sé fráleit, þá séu ákveðin hagkvæmnisrök fyrir því að taka ekki við erfðabreyttum maís og sojabaunum. Þessi hagkvæmnisrök eru þau, að vegna öfganna í Evrópu er hætta á því að ef þessu yrði sáð í Afríku myndu Evrópubúar ekki vilja kaupa landbúnaðarafurðir þaðan, en lönd eins og Zambía afla stórs hluta gjaldeyris síns með útflutningi landbúnaðarafurða til ríkra landa. Ein „lausn“ á þessu sem kann að verða ofan á er að kornið verði malað í landinu áður en því er dreift til almennings, en sumir óttast að það sé ekki nógu öruggt og að einhver hluti þess kæmist í dreifing ómalaður.

Evrópubúar láta oft eins og þeim sé afar annt um velferð fátækustu íbúa heimsins – og líklega er þeim ekki sama um velferð annarra. Þeir sýna væntumþykjuna hins vegar með undarlegum hætti þegar framfarir í matvælaframleiðslu eru annars vegar. Og þeir láta sér líka í léttu rúmi liggja – þótt þeir segist hlynntir umhverfisvernd – að erfðabreytt matvæli hlífa umhverfinu vegna þess meðal annars að minna þarf af skordýraeitri við ræktun þeirra og að meiri uppskera fæst af hverjum hektara lands.