Fimmtudagur 26. september 2002

269. tbl. 6. árg.

ÁVesturlöndum er nú deilt um það hvort og þá hvað eigi að gera í því skyni að koma Saddam Hussein og byltingarflokki hans frá völdum í Írak. Stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa talað fyrir því að valdi verði beitt og nýlega tók ríkisstjórn Spánar í sama streng. Stjórnir annarra Evrópuríkja hafa tekið annan pól í hæðina og vilja alls ekki að hlutast sé til um að Hussein sé komið frá. Segjast þessar ríkisstjórnir óttast mjög þann óróa sem fylgja myndi slíkum átökum og vilja að látið verði nægja að senda snuðrandi eftirlitsmenn til Íraks og muni þeir geta gengið úr skugga um vopnaeign Husseins.

Auðvitað er á margan hátt skiljanlegt og gott að menn séu hikandi að efna til herferðar. Stríð er frá almennu sjónarmiði afleitur kostur. Fyrir utan eyðileggingu og almenna verðmætasóun kemur auðvitað það sem verst er, að í stríði mun láta lífið eða örkumlast fjöldi fólks sem ekkert sérstakt hefur til saka unnið og verður ekki á neinn hátt kennt um ástand heimsmála. Þó sennilegt megi telja að það yrði öllum almenningi í Írak í hag að Hussein verði komið frá völdum, þá yrði það engu að síður hart aðgöngu fyrir það saklausa fólk sem falla myndi fyrir loftárásum og öðrum hernaðaraðgerðum. Það er hætt við að af tvennu illu myndi það flest vilja þrauka áfram undir Hussein – og myndi reyndar sjálfsagt bæta við þeirri ósk að landið fengi að nýju að eiga frjáls viðskipti við önnur lönd.

En hvað, hvað er þá með þessa menn sem endilega vilja fara í stríð? Eru þetta þá bara stríðsóðir repúblikanar sem allir hámenntaðir Evrópubúar vita hvort sem er að eru upp til hópa ólæsir ofstopamenn? Hugsar núverandi forseti Bandaríkjanna kannski aðeins um það eitt að ljúka því verki sem dagaði uppi í höndum föður hans fyrir áratug eða svo? Er bara verið að skapa hergagnaframleiðendum verkefni? Eða eru kannski skynsamleg rök fyrir kröfunni um að Hussein verði komið frá völdum sem fyrst? Rök sem kannski ekki verður blásið á svo auðveldlega? Nú er ekki gott að fullyrða um það hve miklum vopnum Saddam Hussein ræður yfir en eitt og annað er þó vitað um þann mann. Það liggur fyrir að hann hefur látið her sinn ráðast inn í varnarlítið nágrannaríki og leggja það undir sig. Hann hefur skotið eldflaugum að öðrum nágrönnum sínum. Það liggur fyrir að hann hatast við Bandaríkin og hugsanlega Vesturlönd öll og þeirra menningu. Það liggur fyrir að hann hefur beitt þjóð sína miklu harðræði og notað þau meðul sem nauðsynleg hafa verið til að halda kverkataki sínu á henni. Það liggur einnig fyrir að undanfarin ár hefur hann neitað Sameinuðu þjóðunum um að rannsaka vopnabúr landsins og frekar kosið að búa við viðskiptabann annarra ríkja en að unnt verði að staðreyna vopnaeign hans. Hann hefur meira að segja stundum neitað að nýta sér heimild til að selja olíu og kaupa matvæli og lyf fyrir andvirðið.

Hvað á að gera þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga? Það liggur einnig fyrir að hópar fólks eru svo ofstækisfullir í garð gyðinga og Vesturlandabúa, að þeir hika ekki við að láta eigið líf í sölurnar ef þeim aðeins tækist að myrða nokkra saklausa borgara í leiðinni. Og talið er fullvíst að Saddam Hussein láti ríkissjóð Íraks greiða miklar fjárfúlgur til aðstandenda allra slíkra manna eftir að þeim hefur tekist ætlunarverk sitt. Það má telja með öllu ljóst að slíkir menn munu beita eins áhrifaríkum vopnum og þeir geta komist yfir hverju sinni og flestir óbrjálaðir menn hljóta að sjá hvílík nauðsyn er á því að koma í veg fyrir að þeir nái vopnum sem valdið geta stórfelldu mannfalli. Ef ríkisstjórnir telja sig hafa skynsamlegar ástæður til að óttast að maður eins og Saddam Hussein hafi slík vopn undir höndum eða vinni að því að afla þeirra, hvað eiga þær þá til bragðs að taka? Ef skynsamlegur grunur er á slíku, hversu ýtarlegar sönnunarkröfur ætla menn þá að gera áður en þeir fallast á að nokkuð verði gert sem máli skiptir?

Þeir sem tala harðast gegn hertum aðgerðum gegn Saddam Hussein, þeir verða að átta sig á því við hvern verið er að fást. Hér er verið að fást við Saddam Hussein og Írak. Það er ekki eins og þetta sé eitthvert venjulegt ríki sem lýtur lögmálum alþjóðlegra samskipta. Það er ekki eins og menn eigi í höggi við til dæmis Noreg eða Svissland. Hver vill eiga öryggi sitt og sinna undir því að Saddam Hussein verði til friðs? Jújú, kannski er þetta allt einn misskilningur. Kannski er Saddam sauðmeinlaus, vopn hans fábrotin og herinn magnlaus. Kannski er hann ekkert heitur lengur. Kannski er hann búinn að hlaupa af sér hornin. Kannski er bara málið að halda áfram að þrefa við hann og fá samþykktar málefnalegar ályktanir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Kannski er óhætt að senda bara nokkra menn til Íraks, láta þá kíkja í skemmur og rannsóknarstofur og sjá hvort nokkuð alvarlegt er á seyði. Já kannski.

Og kannski ekki.