Miðvikudagur 18. september 2002

261. tbl. 6. árg.

Hvað ætli Stöð 2 hafi sagt margar fréttir af voðaverkunum í Mjóafirði? Dag eftir dag hefur grafalvarlegur fréttamaður stöðvarinnar, þessi sem síðustu ár hefur sérhæft sig í vandamálafréttum, þulið yfir mönnum að fyrirtæki eitt í firðinum hafi hafi framið þann glæp að urða talsvert af dauðum seiðum án þess að afla leyfis Hollustuverndar. Aðrir fjölmiðlar hafa fylgt á eftir og hefur mátt ætla gríðarlegt umhverfisslys hafi orðið og vafasamt hvort líf fái framar þrifist á Austurlandi. Nafn fyrirtækisins jafnan samviskusamlega nefnt og því oft bætt við að hinn eða þessi telji málið „alvarlegt“. Og í gær var greint frá því í fréttum að fyrirtækið hefði verið áminnt fyrir að hafa urðað án þess að hafa leitað leyfis áður.

Er það er þá allt og sumt? Áminning fyrir að hafa urðað án þess að spyrja um leyfi áður. Er það réttlætingin á öllum þessum fréttum? Er það ástæðan fyrir því að þetta tiltekna austfirska fyrirtæki er nefnt í fréttatíma eftir fréttatíma sem sérstakur umhverfissóði sem einskis svífst? Varð svo enginn skaði af umhverfisslysinu? Hafði þetta „alvarlega mál“ engar skaðlegar afleiðingar fyrir nokkurn mann? Og hvert var þá málið? Jújú, menn eiga ekki að fá að urða hvað sem er hvar sem er. Og ef menn urða fleiri tonn af úrgangi, jafnvel þótt lífrænn sé, þá þarf ekki að vera óeðlilegt að einhver geri athugasemd við það. En dramatískar fréttir af slíku máli dag eftir dag, rétt eins og heimurinn sé að farast; hvers konar taugaveiklun er það eiginlega?

Sjálfsagt braut þetta austfirska fyrirtæki einhverja reglugerð. Sennilega allt í lagi, fyrst svo var, að Hollustuvernd geri athugasemdir og ákveði jafnvel einhver hófleg viðurlög, svona til þess að fyrirtæki hafi ekki sjálfdæmi um það eftir hvaða reglum þau fara og eftir hverjum ekki. En að heilu fréttastofurnar missi gersamlega jafnvægið, í eilífri leit sinni að einhverjum sem brýtur reglugerðir, er allt of mikið af því góða og einungis til þess fallið að draga enn úr vægi fréttastofunnar og fréttamannsins.

Og þó það sé annað mál þá eru allt of margar reglugerðir að þvælast fyrir venjulegu fólki. Sérstaklega hefiur hið opinbera verið slæmt með að setja fólki stólinn fyrir dyrnar í nafni „hollustuhátta“, en slíkar reglur valda gríðarlegum kostnaði og óhagræði í stórum sem smáum fyrirtækjum. Látlaus fyrirmæli um lágmarksútbúnað, leyfisumsóknir, skilyrði, starfsleyfi og svo framvegis draga þrótt úr fyrirtækjum og valda því að þau þurfa að hækka verð og draga úr framleiðslu. Sumar hollustureglurnar verða sjálfsagt til þess að auka hollustuna einhvers staðar. En allar, þarfar sem óþarfar, verða þær til þess að skerða lífskjör borgaranna á ýmsan hátt. Það mættu þær þrjár starfsstéttir sem mesta barnfóstrukennd hafa af öllum á Íslandi, stjórnmálamenn, embættismenn og fréttamenn, hafa í huga næst þegar þeir heimta nýjar reglur og fyrirmæli.