Fimmtudagur 19. september 2002

262. tbl. 6. árg.

Áhugamenn um samstarf Íslands við önnur ríki munu hafa stofnað með sér félag á dögunum undir nafninu Heimssýn. Félagið mun hafa vinsamleg samskipti Íslands við sem flest ríki á stefnuskrá sinni, bæði innan og utan Evrópu. Einhverjir evrópusinnaðir kratar sem nú tilheyra Samfylkingunni hafa gert athugasemd við að í Heimssýn séu saman komnir ýmsir hægrimenn og hafi sér til fylgislags vinstrimenn af gamla skólanum m.a. gamla herstöðvaandstæðinga og andstæðinga EES samningsins.

Þetta er vissulega nýstárlegur kokteill. Á heimasíðu Heimssýnar má til dæmis finna nöfn félagsmannanna Hannesar H. Gissurarsonar og Hreins Loftssonar ásamt Árna Bergmann og Ragnari Arnalds. Vafalaust eru menn þarna á mismunandi forsendum en eiga það sameiginlegt að vilja viðhalda frjálsu og fullvalda Íslandi og vinsamlegum samskiptum við fleiri þjóðir en þessar örfáu innan Evrópusambandsins.

Það kemur hins vegar nokkuð á óvart að kratar skuli gagnrýna menn fyrir samvinnu við gamla félagsmenn Alþýðubandalagsins, herstöðvaandstæðinga og andstæðinga EES samningsins. Eru kratar ekki nýkomnir frá mikilli tilraun til að sameinast einmitt þessu liði í stjórnmálaflokki? Þegar upp var staðið voru það ekki kratarnir sem sögðu nei takk heldur sátu þeir eftir með sárt ennið þegar Steingrímur J. Sigfússon og félagar stofnuðu Vinstri hreyfinguna grænt framboð.

Og svo má ekki gleyma því að þegar kratar hafa loks losað sig við Össur Skarphéðinsson úr forystu Samfylkingarinnar og Steingrímur J. Sigfússon veitir leyfi til að skipt verði um borgarstjóra í Reykjavík mun gamli herstöðvaandstæðingurinn og andstæðingur EES samningsins, Ingibjörg Sólrún Gísl., verða leidd þar til forystu.