Þriðjudagur 17. september 2002

260. tbl. 6. árg.

Ungir jafnaðarmenn skoruðu á dögunum á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að leysa Össur Skarphéðinsson af hólmi í forystu Samfylkingarinnar. Þessi áskorun var að vísu sett fram áður en í ljós kom að það eru ekki félagsmenn í Samfylkingunni sem skipa málum þar á bæ heldur hefur Steingrímur J. Sigfússon síðasta orðið um forystumál fylkingarinnar. Fyrr en Ingibjörg Sólrún hafði fundað með Steingrími um málið var ekki tekin ákvörðun um það hvort hún sviki nokkurra vikna gömul loforð sín. Meint leiðtogaefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísl., er pólitískur fangi Steingríms J. Sigfússonar.

En ungum jafnaðarmönnum þykir ekki nóg að gert. Það má alltaf jafna aðeins betur um Össur. Maður sem titlaði sig formann ungra jafnaðarmanna lýsti því yfir í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær að hann vildi ekki hafa mann í stóli forsætisráðherra sem hefði í hótunum við Baug og ýmsa ríkisstarfsmenn ef hann hefði ekki sitt fram. Engu virðist skipta þótt Össur hafi beðist afsökunar á hótunarbréfi sínu til Baugs og iðrast hótana sinna sem umhverfisráðherra í garð veiðmálastjóra um árið. Og ungi formaðurinn virðist heldur ekki hafa gleymt því þegar Össur bauð sig fram til borgarstjórnar fyrir nokkrum árum og hafði í hótunum við starfsmenn borgarinnar.  Fomaður ungra jafnaðarmanna sagði það mikilvægasta verkefni vetrarins að koma í veg fyrir að slíkur maður vermdi stólinn við Lækjargötuna.