Páll Pétursson félagsmálaráðherra lýsti því yfir á dögunum að hægt væri að fá sex herbergja íbúð í Reykjavík leigða á um 50 þúsund krónur. Þetta þykja góðar fréttir fyrir leigjendur en síðri fyrir leigusala sem hingað til hafa þótt sleppa vel ef leigutekjur nægja fyrir sköttum og skyldum af járnbentri steinsteypunni. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa veist að ráðherranum fyrir vikið og telja hann vera að sópa „vanda leigjenda“ undir teppið.
Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafa um árabil tekið að sér að tala máli leigjenda. Með grátstafinn í kverkunum lýsa þær reglulega „neyðarástandi á leigumarkaði“ og „harma úrræðaleysi stjórnvalda“. Því er ekki nema eðlilegt að leitað sé í smiðju Samfylkingarinnar eftir úrræðum við sárustu neyðinni á leigumarkaði.
Í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar var einkum eitt atriði sem varðar leigusala og viðskiptavini þeirra. Þetta er raunar sama úrræði og Vinstri hreyfingin grænt framboð bauð kjósendum upp á þótt það dygði ekki til að sameina vinstri menn í einn flokk eftir að þeir klofnuðu í miðri sameiningarorgíu. Til að lina sárustu kvalir leigjenda þótti þessum flokkum nærtækast að kvalarar þeirra, þ.e. leigusalar, fengju á sig 40% fjármagnstekjuskatt en leigutekjur bera „aðeins“ 10% skatt í dag. Þetta úrræði er vissulega í samræmi við þá almennu stefnu vinstriflokka að þeir megi ekkert aumt sjá án þess að skattleggja það.
Áhrifin af þessari „lausn“ á neyðarástandinu á leigumarkaði yrðu líklega eftirfarandi: Framboð á leiguhúsnæði myndi dragast saman vegna skattheimtunnar. Til að mæta tekjutapi vegna skattheimtunnar þyrfti einnig að hækka leigu á því húsnæði sem eftir stæði. Því er ekki að neita að þetta myndi losa ýmsa leigjendur úr klóm leigusala fyrir fullt og allt. Ef þeir væru svo óheppnir að finna íbúð gætu þeir verið nokkuð vissir um að þeir hefðu ekki efni á að taka hana á leigu.