Fimmtudagur 12. september 2002

255. tbl. 6. árg.

Nú er komið í ljós – vísindalega sannað – að Evrópubúar hafa ofnæmi fyrir evrunni. Hingað til hefur verið ljóst að margir hafa ofnæmi fyrir ýmsu sem evrunni tengist, svo sem hækkandi verðlagi í evrulöndum í kjölfar innleiðingar evrunnar. Aðrir hafa haft ofnæmi fyrir vitlausri umræðu um sögulega nauðsyn þess að allar evrópskar þjóðir taki upp evruna, sú umræða hefur minnt óhugnanlega mikið á sögulega nauðhyggju Marxismans. En það er sem sagt ekki bara þess háttar „ofnæmi“ sem evran veldur, heldur er nú læknisfræðilega staðfest með rannsóknum að evran er ofnæmisvaldur. Maður að nafni Frank Nestle og fleiri vísindamenn á hans vegum í Sviss, hafa komist að því að evrumyntin lætur frá sér allt að 320 sinnum meira magn af nikkeli en Evrópusambandið sjálft leyfir í reglum sínum. Myntin fer í bága við mikilvæga tilskipun 94/27 sem Evrópusambandið hefur sett til að takmarka nikkel í skartgripum og öðrum hlutum sem menn hafa gjarna á hendinni eða við hana.

Þó ofnæmi Evrópubúa vegna hækkandi verðlags – þ.e. þeirra Evrópubúa sem eru svo ólánsamir að búa á evrusvæðinu – valdi ekki sömu útbrotunum og líkamlegu óþægindunum og myntin góða, þá hafa þeir þó margir fengið sig fullsadda og mótmæla í verki. Neytendur í Grikklandi hafa mótmælt með því að draga úr neyslu sinni ákveðinn dag, og Ítalir eru í dag að mótmæla öðru sinni. Eftir innleiðingu evrunnar hafa þar í landi dunið yfir hækkanir á vatni, gasi, rafmagni, lyfjum, fargjöldum og öðru sem fólk notar mikið. Reiknað hefur verið út að hækkunin fyrir venjulega fjölskyldu muni nema sem svarar til um 80.000 krónum á ári.

Það er óneitanlega nokkuð hátt gjald fyrir að fá að ganga um með útbrot og blöðrur.