Vandfundinn mun sá vestræni fjölmiðill sem ekki minnist þess á einn eða annan hátt að í dag er liðið ár frá því róttæklingar nokkrir efndu til mikilla hryðjuverka í Bandaríkjunum. Í munni margra hefur 11. september 2001 orðið að deginum „þegar heimurinn breyttist“, en það verður þó að teljast hæpin fullyrðing. Heimurinn breyttist ekki fyrir ári. Hins vegar varð sú breyting að margir, að minnsta kosti um stund, áttuðu sig á því hvernig heimurinn er, hefur verið og verður. Margir áttuðu sig á því að það var tómur misskilningur að það væru engar sérstakar ógnir sem steðjuðu að venjulegum vestrænum borgurum. Það er ekki þannig að það séu bara allir vinir, heimurinn bara orðinn að friðsælu þorpi þar sem allir geta gert það sem þeim sýnist, allar áhyggjur eru hlægilegar og öryggisráðstafanir bara furðuleg paranoia. – Afsakið, vænisýki.
En fyrir ári áttuðu margir sig á því að það eru og verða alltaf til öfl sem vilja koma vestrænum ríkjum og því sem eftir er af vestrænni menningu á kné. Og þessi öfl munu beita þeim ráðum sem þau geta. Fólkið sem fórst í turnunum eða með flugvélunum var hvorki betra né verra en annað fólk. Það var hvítt og svart, kristið, islamstrúar, trúlaust. Það var bara statt í þeirri borg sem þykir einna táknrænust fyrir vestræna lifnaðarhætti. Það varð bara fyrir þegar hatur róttæklingsins fékk útrás. Þessir atburðir opnuðu augu margra fyrir því að það verður alltaf sótt að vestrænni menningu, svo lengi sem hún þráast við að hverfa með öllu og eftirláta róttæklingum annarrar menningar heiminn. En sum augu voru auðvitað kyrfilega lokuð áfram enda verða ætíð til þjóðfélagsöfl sem hafa rangt fyrir sér, hvenær sem grundvallaratriði koma til tals. Þannig reyndu viss þjóðfélagsöfl á Vesturlöndum – þó þau gættu þess vitaskuld að fordæma hryðjuverkin í leiðinni – að sannfæra fólk um að Vesturlönd, og þá einkum hin hötuðu Bandaríki, gætu einfaldlega sjálfum sér um kennt. „Það er ekki út af engu sem fólk hatar Bandaríkin“ segja þessi þjóðfélagsöfl. Hafa þau síðan reynt að færa sér hryðjuverkin í nyt með því benda á þau sem sönnun þess að nú þegar þurfi að gerbreyta heimsmyndinni.
Reyndar er oft með ólíkindum hvernig sumir geta alltaf dregið fráleitar ályktanir af því sem þeir heyra eða sjá. Þannig voru fyrstu viðbrögð margra vinstrigrænna Íslendinga að tilkynna að þessar árásir sýndu augljóslega að fyrirhugað geimvarnakerfi Bandaríkjanna væri haldlaust! Gamanlaust, þessu var haldið fram af ábúðarmiklum mönnum sem sumum þykja miklir spekingar. Sæmilega gefnir menn og ekki einu sinni það sáu hins vegar að árásirnar sýndu einmitt að hið róttæka lið sem hatar Bandaríkin og Vesturlönd, mun beita þeim ráðum sem það ræður yfir. Eða dettur nokkrum vitibornum manni í hug að þeir menn, sem létu til skarar skríða fyrir ári, myndu ekki nota eldflaugar gegn Bandaríkjunum ef þeir réðu yfir þeim? Hvað ætti að hindra þá? Virðing fyrir lífi almennra borgara? Ótti við að kalla yfir sig harðorða ályktun Evrópusambandsins? Það að nota árásirnar sem röksemd til að ráðleggja Bandaríkjamönnum að falla frá varnaráætlunum sínum, það hlýtur að krefjast einstaks dómgreindarleysis.
Eftir á hafa svo auðvitað skotið upp kollinum menn sem telja að það hefði nú mátt koma í veg fyrir þessar árásir. Bandarísk stjórnvöld hafi mátt vita að árás vofði yfir. Ýmsar „vísbendingar“ og „upplýsingar“ eru kynntar með þeim orðum að af þeim hefði nú mátt ráða hvað var á seyði. Almestu spekingarnir bæta því svo við að úr því að Bandaríkjastjórn hafi ekki hindrað árásirnar þá hafi herför hennar gegn Talibanastjórninni í Afganistan þar með verið fráleit og ósanngjörn! Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram að „vísbendingar“ þessar sögðu ekkert um það hvað yrði gert eða hvar. En þeir sem allt vita best eftir á hafa hins vegar verið stórorðir um að orð ónafngreindra araba, inni í miðju Afganistan daginn fyrir árásirnar, þess efnis að „á morgun“ muni „tíminn stöðvast“ – eða álíka „vísbendingar“ – hafi átt að vera mönnum næg viðvörun. En þessir menn, sem telja að í ljósi slíkra upplýsinga eða annarra heitstrenginga hefði mátt stöðva hryðjuverkamennina í tæka tíð, þetta eru sömu menn og mega ekki heyra það nefnt að lagt verði til atlögu við hryðjuverkamenn eða ríki sem styðja þá, án þess að fengnar séu „fullnægjandi sannanir“ fyrir glæpum þeirra. Og vel að merkja, þessum mönnum þykja engar sannanir fullnægjandi.
En hér er komið að verulegu vandamáli enda þarf krafan um sæmilega skynsamlegar sannanir fyrir glæpum grunaðra hryðjuverkamanna ekki að vera tómur fyrirsláttur. Allt sæmilegt fólk vill að reynt sé að tryggja öryggi borgaranna. En samt vill það líka – og ekki að ástæðulausu – að borgararéttindi séu tryggð. Menn vilja ganga öryggir um götur, án þess að allt sé morandi í eftirlitsmönnum. Menn vilja að hryðjuverkamenn séu miskunnarlaust stöðvaðir áður en þeir ná að koma vilja sínum fram, en menn vilja á hinn bóginn ekki að saklausir menn séu handteknir eða áreittir á annan hátt. Þessar kröfur, sem allar eru eðlilegar, setja yfirvöld í erfiða stöðu. Fólk vill njóta tækninýjunga, upplýsingastreymis og takmarkaðs landamæraeftirlits. En það eru svo einmitt þessi atriði sem gera hryðjuverkamönnum lífið auðveldara. Fólk vill að lögregla nái miklum árangri við að stöðva tilræðismenn. Engar viðvaranir má hunsa. En svo vilja til dæmis fjölmiðlamenn geta sótt að lögreglu og krafið hana um nákvæmar skýringar á öllum hennar aðgerðum. Eftir á þykja óþarfar aðgerðir ákaflega hlægilegar. Við allan þennan línudans bætist það hversu erfitt það er að glíma við þá menn sem einskis svífast, menn sem eru svo heiftúðugir að þeir telja það sérstakan sigur ef þeir láta sjálfir lífið þegar þeir vinna voðaverk sín. Þegar við slíka menn er að eiga þá getur fólk aldrei verið öruggt. Sá sem er reiðubúinn að fórna sjálfum sér á þess alltaf kost að ganga lengra en sá sem ekki er reiðubúinn til þess. Engu að síður verður að reyna að draga sem mest úr hættunni án þess að gefa eftir rétt hins almenna borgara til að geta um frjálst höfuð strokið. En þetta viðfangsefni er það mikilvægasta sem stjórnvöld, og þá ekki síst lögregluyfirvöld, í hinum vestræna heimi hafa með höndum á næstu árum. Meðal annars þess vegna væri gott ef öðrum verkefnum og fánýtari yrði létt af þeirra herðum.