Guðmundur Árni Stefánsson fyrrum ráðherra og siðfræðingur Samfylkingarinnar telur að nú verði að hætta við sölu Landsbankans vegna þess að einn af nefndarmönnum framkvæmdanefndar um einkavæðingu er ósáttur við gang mála í þeim kafla einkavæðingar bankans – ef til vill lokakafla – sem nú stendur yfir. Guðmundur Árni lýsti því í Kastljósi í gærkvöldi hvaða augum hann liti málið og sagði þar meðal annars að hann og aðrir úr Samfylkingunni vilji að „nú setji menn málið á hóld“. Og til að enginn velktist í vafa um vilja þessara höfðingja lauk hann máli sínu í þættinum svo: „Ég treysti ekki ríkisstjórninni fyrir þessu máli og þessu á að fresta fram yfir kosningar þannig að við getum lappað og lagað þetta allt saman.“
Já, bíða fram yfir kosningar og „lappa og laga“ þetta allt saman þá. Ef þetta væri í fyrsta sinn sem Samfylkingin eða forverar hennar, Alþýðubandalagið, Kvennalistinn, Þjóðvaki, Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn – sameiningarflokkur alþýðu, færi fram á að einkavæðingu yrði frestað mætti ef til vill hugleiða möguleikann. Þá væri ef til vill eitthvað annað á bak við þessa kröfu en almenn og alger andstaða flokksins við einkavæðingu. Staðreyndin er hins vegar sú að Samfylkingin og forverar hennar hafa árum og áratugum saman barist gegn einkavæðingu. Ekki aðeins „í gamla daga“ áður en þetta fólk sá að sósíalisminn fyrir austan tjald var ekki besta hugmynd mannkynssögunnar, heldur líka á allra síðustu árum og misserum eftir að „þriðja leiðin“, sem enginn vill nú kannast við, og aðrar ámóta snjallar hugmyndir hafa hreiðrað um sig í flokknum.
Samfylkingarmenn þykjast oft afar nútímalegir og telja fátt meiri forneskju en framsóknarmenn. Þó er það svo að þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur sátu saman í ríkisstjórn á árunum 1991-1995, þá var varla nokkur leið að fá Alþýðuflokkinn til að samþykkja að einkavæða nokkurn hlut. Með hurðaskellum, hótunum og öðrum hamagangi sem frægur varð, tókst flokknum að hindra svo að segja alla einkavæðingu, og ekki var snert á einkavæðingu banka eða sjóðakerfis ríkisins. Heildarfjárhæð þess sem einkavætt var á þeim árum sem Alþýðuflokkurinn sat í ríkisstjórn nam um 2 milljörðum króna. Frá þeim tíma hefur Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tekist að einkavæða fyrir rúma 24 milljarða króna og ef Samfylkingunni tekst ekki að koma í veg fyrir þau áform ríkisstjórnarinnar að ljúka einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans á kjörtímabilinu, þá má reikna með að þessi upphæð tvöfaldist eða jafnvel ríflega það.
Það skyldi hins vegar enginn velkjast í vafa um hver afstaða Samfylkingarinnar verður á hverju einasta stigi einkavæðingarinnar. Samfylkingin mun reyna að leggja stein í þessa götu við hvert fótmál og verða uppfinningasöm þegar kemur að því að rökstyðja hvers vegna best sé að einkavæða ekki nú. Samfylkingin mun ekki þora að koma hreint fram og segjast vera á móti því að einkavæða, en hún mun alltaf verða á móti aðferðinni, tímasetningunni, verklaginu, kaupandanum, verðinu eða bara einhverju öðru sem hægt er að finna að hafi menn nægilega einbeittan vilja til að spilla fyrir.