Mánudagur 19. ágúst 2002

231. tbl. 6. árg.

Leigubílstjórar eru eins og allar aðrar starfsstéttir, þeir vilja takmarka fjölda þeirra sem stunda sömu atvinnu og þeir sjálfir. Ástæðan er einföld, með því að sem fæstir stundi leigubílaakstur er meira að gera fyrir þá sem starfa í greininni og þar með meira upp úr starfinu að hafa. Þetta er út af fyrir sig skiljanleg afstaða ef aðeins er litið til þröngra sérhagsmuna leigubílstjóra. Það þýðir hins vegar ekki að leigubílstjórar eigi einhvern rétt á því að halda fjölda leigubílstjóra í lágmarki og koma þannig í veg fyrir að aðrir geti keppt við þá um verð og þjónustu. Einhverra hluta vegna hefur leigubílstjórum lengi tekist að láta sérreglur gilda um sig og hafa getað búið við miklar aðgangshindranir að greininni. Þeim finnst þó ekki nóg að gert, því nú hefur Frami, eitt af þremur félögum leigubílstjóra, óskað eftir því að leyfum til leiguaksturs verði fækkað.

Hvernig litist mönnum á ef svipaðar reglur giltu um alla hluti. Hvað ef leyfi til rekstrar matvöruverslana á höfuðborgarsvæðinu væru til að mynda 20. Færa mætti sambærileg rök fyrir fækkun verslana, því oft standa búðir hálf- eða galtómar og nýting gæti því verið betri. Sama má raunar segja um allan rekstur, með fjöldatakmörkunum mætti auka nýtingu þjónustufyrirtækja, en er það eftirsóknarvert. Nei, einu afleiðingarnar yrðu þær að verð myndi hækka og þjónustan versna. Það sem heldur niðri verði er frjáls samkeppni, sem felur það meðal annars í sér að aðgangur að atvinnugrein er óheftur og að sumir standast ekki samkeppnina og verða að snúa sér að öðru.

Þessi lögmál þyrftu að fá að gilda um leigubílaakstur eins og annan rekstur, en þá vill svo einkennilega til að leigubílstjórar vilja enn meiri fjöldatakmarkanir, enn minni samkeppni og enn verri þjónustu. Það vill nefnilega svo til að þó það myndi sjálfsagt henta leigubílstjórum að færri yrðu um hituna, þá þekkja kaupendur þjónustunnar vel þann vanda sem fylgir því að of fáir hafa leyfi til að veita hana. Hver kannast ekki við að hafa reynt að fá leigubíl að nóttu til um helgi og þurft að bíða von úr viti. Eða jafnvel að fá það svar á leigubílastöð – ef það er á annað borð svarað – að lítil von sé um bíl á þessum tíma. Bílstjórarnir anni svo illa eftirspurninni að þeir taki ekki einu sinni við pöntunum stöðvarinnar.

Þegar slíkt ástand blasir við neytendum þjónustunnar er furðulegt í meira lagi að fara fram á fækkun leyfa. En þessi fjarstæðukennda ósk Frama hefur þó orðið til þess að samgönguráðuneytið hefur boðað til fundar um málið og hyggst taka það til skoðunar. Hver veit nema sú könnun verði til þess að ráðuneytið átti sig á að slíkt haftakerfi er ekki boðlegt og veiti frelsi á þessu sviði? Þetta er ef til vill fjarlæg von og mikil bjartsýni, en með slíkri afstöðu gæti ráðherra sýnt að hann tekur almenning fram yfir sérhagsmunapotara.