Þriðjudagur 20. ágúst 2002

232. tbl. 6. árg.

Ágamlársdag hefjast allir fréttatímar á sama hátt: „Gert er ráð fyrir að í kvöld skjóti landsmenn upp flugeldum fyrir að minnsta kosti fimm hundruð milljónir króna.“ Fréttamönnum finnst nefnilega þessi eyðsla í stjörnuljós og flugelda gengin út í öfgar. Enda bæta þeir oft við fréttirnar upplýsingum um það hvað gera mætti við þá fjármuni sem „skotið er upp í loftið“ eða hreinlega „brennt“ um áramótin, svo notað sé orðalag fréttamanna. Fyrir það fé má nefnilega gera svo margt gagnlegt og fallegt. Og kannski undrar fleiri en fréttamenn hve margir verja miklu fé til skammvinnrar skemmtunar á áramótum. Sumir greiða tugþúsundir króna fyrir nokkurra sekúndna drunur. En þó öðrum kunni að þykja sú ráðstöfun fjármuna einkennileg, þá skiptir það engu máli. Menn eru nefnilega að eyða sínum eigin peningum og þurfa ekki að standa öðru fólki skil á þeim.

Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um svo kallaða „menningarnótt“ í Reykjavík – þó nafnið „nótt“ sé nokkuð undarlegt samheiti á atburðum sem öllum er lokið fyrir miðnætti. En hvað um það, það er margt annað í allri fjölmiðlaumfjölluninni sem er athyglisvert. Eða öllu heldur, það er athyglisvert hvað alls ekki er fjallað um. Nú ber nefnilega svo við að fréttamenn hafa engan áhuga á kostnaðinum við herlegheitin. Fréttamennirnir, sem alvarlegir tala um alla peningana sem almennir borgarar sprengja um áramótin, hafa ekki minnst aukateknu orði á það hvað flugeldasýning Orkuveitu Reykjavíkur á „menningarnótt“ kostaði. Og var þar þó enginn að eyða eigin peningum heldur er kostnaðurinn greiddur af öllum þeim sem nota vatn í Reykjavík.

Og eftir á, þegar í ljós kemur að skemmtun fjölmargra fór úr böndum þegar eiginlegri dagskrá var lokið, þá kemur forseti borgarstjórnar bara og kennir ríkinu um allt, eins og núverandi borgaryfirvalda er reyndar siður. Þó var lögreglan með aukavaktir alla nóttina. En eins og venjulega er ekkert borgaryfirvöldum að kenna; nei það er ekki eins og það hafi verið þau sem stefndu tugum þúsunda manna á örlítinn blett í miðbænum og það á laugardagskvöldi án þess að biðja um sérstakan viðbúnað lögreglu. Fréttamennirnir, sem eftir hverja verslunarmannahelgi, geta rætt dögum saman um að aðstandendur þrjúþúsundmanna-útihátíða uppi í sveit hafi „ekki útvegað næga gæslu“, þeir láta þetta bara gott heita. Borgin, sem stefnir 60-70 þúsund manns í miðbæinn á laugardagskvöldi, hún er auðvitað stikkfrí.

Því „menningarnóttin er komin til að vera“.