Helgarsprokið 18. ágúst 2002

230. tbl. 6. árg.

Það tæki ríkisvaldsins sem er hvað varasamast er vald þess til að setja lög. Með þessu tæki getur ríkið boðið mönnum eða bannað að gera velflest sem því dettur í hug. Einum lögum, stjórnskipunarlögum, er þó meðal annars ætlað að stemma stigu við þessari afskiptasemi. Núgildandi stjórnskipunarlög voru sett árið 1944 og heita Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Ólíkt öðrum lögum geta þingmenn ekki sett slík lög eða breytt þeim að vild. Frumvarp til slíkra laga þarf fyrst að hljóta samþykki á þingi, sem síðan er rofið áður en boðað er til nýrra kosninga. Hið nýkjörna þing þarf svo einnig að samþykkja frumvarpið og verður það þá að stjórnskipunarlögum. Þingmönnum er því veitt ólíkt meira aðhald við þessa lagasmíð heldur en þegar afgreidd eru almenn lög, en nú orðið er á annað hundrað slíkra laga samþykkt árlega á Alþingi.

„Það eru sum sé ekki lengur aðrir en „stærri rekstraraðilar“ sem „eiga sjálfir að geta gætt hagsmuna sinna við gerð […] samninga“. Þeir eru líka þeir einu sem „er eðlilegt að […] hafi frelsi“ til að taka upplýstar ákvarðanir um að bera sjálfir hluta af áhættu af tjóni, gegn því að greiða lægri tryggingaiðgjöld.“

Vafalaust dregur hinn sérstaki afgreiðsluháttur úr löngun þingmanna til að hreyfa mikið við stjórnarskránni. En afleiðingarnar eru líklega fleiri. Þar sem kosningar fylgja óhjákvæmilega því þegar þessi tegund frumvarpa er samþykkt í fyrra skiptið, snúast þær kosningar iðulega að einhverju leyti um efni viðkomandi frumvarpa. Hinn yfirvofandi dómur kjósenda hefur því vafalítið töluvert með það að gera að stjórnarskráin inniheldur einkum ákvæði sem ætlað er að vernda borgarana fyrir ágangi ríkisvaldsins. Stjórnarskrám hefur enda ætíð verið ætlað það hlutverk, fyrst þegar ríkisvaldið var í höndum konunga og síðar þegar það færðist í hendur kjörinna fulltrúa almennings. Því er það nær eingöngu í stjórnarskránni sem finna má einhverja vörn gegn þeirri tilhneigingu ríkisvaldsins að setja sífellt fleiri ný lög þar sem borgurunum er sagt hvernig þeir skuli standa og sitja.

Þrátt fyrir að ríkisvaldið sé iðið við að framleiða fyrirmæli um hvernig þegnarnir skuli hegða sér, hafa sum lög takmarkað sjálf þá afskiptasemi sem í þeim felast. Þessi lög er frávíkjanleg. Þau gilda eingöngu þar sem borgararnir hafa ekki samið á annan veg. Ein slík lög eru lög um vátryggingarsamninga. Samkvæmt þeim lögum er fólki frjálst að haga þeim samningum, sem það gerir við vátryggingafélög um tryggingar sínar, á þann veg sem þeim þóknast, en um þau atriði sem ekki er fjallað í þessum samningum gilda ákvæði laganna. Með þessum hætti hefur forræðishyggjunni hingað til verið sett nokkur takmörk.

Nú er þessi aðferð við lagasmíð hins vegar á hröðu undanhaldi. Ríkisvaldið virðist hafa misst alla trú á að landmenn hafi nokkra rænu lengur til að taka skynsamlegar ákvarðanir um hvernig þeir framkvæma nokkurn hlut, þar á meðal hvernig þeir semja við sín tryggingafélög. Á heimasíðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis hafa nú verið birt drög að fjórum nýjum lagafrumvörpum. Eitt þeirra er frumvarp til nýrra laga um vátryggingarsamninga. Í því er skýrt tekið fram að nú verði lagaákvæði um þetta efni ekki lengur frávíkjanleg. Frumvarpshöfundum verður ekki skotaskuld úr að rökstyðja ástæður þessa (bls. 76): „Eitt af markmiðum frumvarpsins er að veita vátryggingartökum og þeim sem vátryggðir eru, eða njóta með öðrum hætti réttar til greiðslu vátryggingarbóta, lágmarksvernd. Ef lagt yrði til að lögin verði frávíkjanleg yrði markmiði þessu stefnt í hættu.“ Þar hafið þið það. Það þarf að taka af ykkur réttinn til að semja eins og ykkur sýnist, um þær tryggingar sem þið viljið kaupa, til þess að þið farið ykkur ekki á voða.

En það eru ekki bara almennir borgarar sem eru orðnir svo skyni skroppnir að geta ekki lengur séð sjálfir um þessi mál sín: „Ekki þykir þó rétt að binda ófrávíkjanleika laganna eingöngu við neytendur, enda verður að telja að flestir minni rekstraraðilar hafi alveg jafn mikla þörf fyrir þá lágmarksvernd, sem reglum frumvarpsins er ætlað að veita.“ Ekki er ljóst hvort með tilvísun til „minni rekstraraðila“ er átt við að smávaxnir, sjálfstætt starfandi bisnissmenn séu jafn heimskir og við, sauðsvartur almúginn. Líklega er þó þarna átt við að smærri fyrirtæki valdi því einfaldlega ekki lengur að semja sjálf um þær tryggingar sem þau kaupa.

En hvað þá um „hávaxnari rekstraraðila“? Þeir teljast sem betur fer enn vera með fullum sönsum, eða eins og segir í frumvarpinu: „Á hinn bóginn er ekki ástæða til að koma í veg fyrir að stærri rekstraraðilar semji á annan hátt en reglur frumvarpsins gera ráð fyrir, jafnvel þótt það leiði til lakari kjara en ef reglunum væri fylgt. Ástæða þessa er sú, að stærri rekstraraðilar eiga sjálfir að geta gætt hagsmuna sinna við gerð vátryggingarsamninga sem og annarra samninga og keypt sér þá sérfræðiþjónustu, sem þarf við samningsgerðina. Auk þess er eðlilegt að slíkir aðilar hafi frelsi til þess að taka þá upplýstu ákvörðun að bera sjálfir einhvern hluta af tjóni ef vátryggingaratburður verður, eða takmarka rétt sinn á hendur félaginu að einhverju öðru leyti og greiða í staðinn lægri iðgjöld.“

Þar hafið þið það. Það eru sum sé ekki lengur aðrir en „stærri rekstraraðilar“ sem „eiga sjálfir að geta gætt hagsmuna sinna við gerð […] samninga“. Þeir eru líka þeir einu sem „er eðlilegt að […] hafi frelsi“ til að taka upplýstar ákvarðanir um að bera sjálfir hluta af áhættu af tjóni, gegn því að greiða lægri tryggingaiðgjöld. Hér er að vísu ekki um að ræða frumvarp til stjórnskipunarlaga og því viðbúið að meðferð þess muni ekki njóta mikillar athygli almennings. Það verður hins vegar afar fróðlegt að fylgjast með því hvort þingmenn Íslendinga muni taka undir að landsmenn séu nú orðnir svo getulausir að þeir megni ekki einu sinni lengur að semja sjálfir við tryggingafélög án hjálpar ríkisvaldsins.