Robert Mugabe, leiðtogi ríkis sem hann nefnir Zimbabwe, er með allra hættulegustu mönnum veraldar. Þetta hefur hingað til birst í ýmsum misalvarlegum myndum, allt frá því að fjöldi pólitískra andstæðinga hans hefur verið myrtur á þeim áratugum sem hann hefur stýrt landinu og til þess að blaðamenn geta lent í allt að tveggja ára fangelsi fyrir að fara rangt með staðreyndir um stjórnvöld landsins eins og það er kallað. Hann hefur einnig nýlega tapað kosningum en falsað niðurstöðurnar sér í hag, og nú hafa aðstæður enn versnað, því vegna ákvarðana Mugabes á að minnsta kosti helmingur landsmanna á hættu að verða hungri að bráð. Mugabe kennir þurrkum um, en þurrkar hafa áður hrjáð þetta Afríkuríki og þá komu kunnáttusamir bændur í veg fyrir hungursneyð. Nú eru aðstæður hins vegar þær að fjölmargir kunnáttusamir bændur eru óvelkomnir í landinu og þeim hefur verið fyrirskipað að hafa sig á brott af jörðum sínum hið snarasta og taka aðeins með sér helstu nauðsynjar.
Ástæðan fyrir þessu er sú að bændurnir eru hvítir á hörund og það hentar Mugabe ekki. Matarframleiðslan og það hvort landar hans lifa eða deyja er aukaatriði, aðalmálið er að koma hvítu mönnunum í burtu. Ætlunin er að færa jarðirnar í hendur svörtum íbúum landsins og láta þá taka við framleiðslunni, en vandinn er sá að með því hverfur þekking úr landbúnaði Zimbabwe og reynslan hefur sýnt að þeir sem tekið hafa við þeim jörðum sem eigendurnir hafa verið hraktir af framleiða mun minna en eigendurnir gerðu. Fyrir því eru einfaldar ástæður. Annars vegar skortir þá sem taka við kunnáttu, því þeir hafa ef til vill þann helsta „kost“ að vera innundir hjá Mugabe, en hafa aldrei komið nálægt landbúnaði. Hins vegar skortir rétta hvatningu til að framleiðslan verði eðlileg. Þegar eignarréttur er jafn fótum troðinn og raunin er í Zimbabwe Mugabes er engin von til að menn leggi sig fram, fari út í eðlilegar fjárfestingar eða hugsi yfirleitt nokkuð til framtíðar. Enginn veit hver mun njóta ávaxta framtaksseminnar og þess vegna verður ekki um neina framtakssemi að ræða. Afleiðingarnar hafa orðið þær að landbúnaðarframleiðsla hefur fallið um tvo þriðju frá því aðgerðir Mugabes gegn hvítum bændum hófust.
En það er ekki aðeins að þessi harðstjóri stundi manndráp og gripdeildir á landi. Hann er einnig farinn að seilast í sparnað landsmanna og gerir það með því að skylda lífeyrissjóði til að „fjárfesta“ 45% sjóða sinna í ríkisbréfum. Af bréfunum eru greiddir 25% vextir, sem hljómar ef til vill ekki svo illa þar til upplýst er að verbólga landsins er 114%. Með þessu áframhaldi mun Mugabe takast að stela öllum sparnaði landsmanna og öllu landi hvítra landsmanna. Og hann mun svelta að minnsta kosti helming landsmanna, en 600.000 þeirra þurfa þegar á matvælaaðstoð að halda til að draga fram lífið. En honum er sama enda líður hann ekki skort af nokkru tagi. Og hann á líka geðþekka vini sem segja honum örugglega ekki til syndanna, menn á borð við góðmennið Gaddhafi leiðtoga Lýbíu, sem stutt hefur við bakið á Mugabe þegar á hefur reynt.