Það er gott til þess að vita að ekki séu allir stjórnmálamenn horfnir í greipar hins pólitíska rétttrúnaðar. Undanfarna daga hefur Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs Kópavogs, fært sterk rök gegn tillögu Samfylkingarinnar um að Kópavogskaupstaður fylgi í fótspor Reykjavíkurborgar og breyti lögreglusamþykkt bæjarins á þann veg að tiltekin atvinnustarfsemi, einkadans, sé bönnuð í sveitarfélaginu. Um tíma leit út fyrir að Gunnar stæði einn sveitarstjórnarmanna vörð um atvinnufrelsi borgaranna en í gær bættist honum ánægjulegur og all óvæntur liðsauki. Árni Sigfússon bæjarstjóri í Keflavík, sem hingað til hefur svo sem ekki þótt harðasti andstæðingur hins pólitíska rétttrúnaðar, var þá kominn í fjölmiðla og benti á að hvorki sveitarfélög né einstök ráðuneyti hafa nokkra heimild til að banna atvinnustarfsemi, en einkadans er óneitanlega atvinnustarfsemi hvort sem menn eru ánægðir eða ekki með að annað fólk ákveði að starfa við hann.
Árni Sigfússon benti réttilega á að samkvæmt stjórnarskrá Íslands er sérstaklega bannað að skerða atvinnuréttindi á annan hátt en með lögum. Þetta hefur Vefþjóðviljinn leyft sér að benda á af og til og er þetta reyndar svo augljóst að ótrúlegt er að nokkrir borgarfulltrúar, hvað þá sjálfur dómsmálaráðherra landsins, hafi í raun ímyndað sér hið gagnstæða. Því miður er sennilegra að þessir merku stjórnmálamenn hafi gleymt sér í kapphlaupinu um það hver geti verið mest á móti erótískum skemmtistöðum og því fólki sem þar starfar eða sækir þangað tilbreytingu í daglegu lífi sínu. Í trausti þess að dómstólar muni ekki þora að koma svo rægðum hópi sem starfsfólki og viðskiptavinum erótískra skemmtistaða til hjálpar, hafi þessir stjórnmálamenn leiðst út í gerning sem gengur út yfir alla venjulega ósvífni. Ef Vefþjóðviljinn væri ekki fremur lítið fyrir stóryrðaglamur þá myndi hann telja að borgarfulltrúar í Reykjavík og ekki síður núverandi dómsmálaráðherra hefðu með mjög alvarlegum hætti misnotað það hóflega vald sem þeim var ætlað með heimildinni til að setja svokallaðar lögreglusamþykktir.
Það er ánægjulegt að þeir Gunnar og Árni hafi haft bein í nefinu til að standa uppi í hárinu á rétttrúnaðarliðinu og er framganga þeirra beggja þeim til sóma. Afstaða Árna er auk þess sérstaklega ánægjuleg fyrir þá sök að hann var eitt sinn borgarstjóri í Reykjavík og svo um rúmlega fjögurra ára skeið oddviti minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. Tillaga R-listans um að banna einkadans með lögreglusamþykkt var samþykkt í borgarstjórn með 14 atkvæðum gegn engu, en Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá. Í þessu einkadansmáli reynir á grundvallaratriði. Hér er einfaldlega um það að ræða að gerður er aðsúgur að því fólki sem framfleytir sér með löglegri vinnu sem sumir aðrir hafa ímugust á. Það er í slíkum málum sem reynir á hvort menn standa vörð um atvinnufrelsi og borgararéttindi eða hvort þeir láta undan þegar á reynir. Það mætti vera umhugsunarefni fyrir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að í þessu máli hafa þeir skipað sér stjórnlyndismegin við Árna Sigfússon.