Ídag eru fimmtán ár liðin frá opnun verslunarmiðstöðvarinnar „Kringlunnar“. Voru margir orðnir spenntir að komast í slíka miðstöð hér á landi enda „Kringlan“ til muna stærri en þær verslanamiðstöðvar sem Íslendingar urðu að gera sér að góðu á heimavelli. Var því ekki að undra þó margir hafi komið að skoða dýrðina á opnunardaginn og slíkur varð fjöldinn að úr varð hálfgert öngþveiti þar sem bílastæðin og umferðaræðar réðu ekki við allan fjöldann sem kom þegar álagið var mest. Starfsmenn Ríkisútvarpsins voru þá eins og þeir hafa yfirleitt verið og kvöldfréttirnar 13. ágúst 1987 snerust ekki síst um þetta öngþveiti. Þannig hafði fréttamaður upp á lögregluþjóni sem fáanlegur var til að tala næstum endalaust um það að allt skipulag á svæðinu væri augljóslega fyrir neðan allar hellur. Troðningur og hæg umferð á opnunardaginn var það helsta sem fréttastofa Ríkisútvarpsins sá fréttnæmast við opnun stærstu – og að margra áliti, fyrstu raunverulegu – verslunarmiðstöðvar á Íslandi, en starfsfólk Ríkisútvarpsins er auðvitað bara eins og það er.
Og enn eru fréttamenn fundvísir á hættur, galla, kvartanir, áhyggjufulla starfsmenn og óánægða viðskiptamenn. Hversu mjög sem opinber framlög til einhvers málefnis eru aukin þá geta fréttamenn alltaf fundið einhvern starfsmann sem telur ekki nóg að gert. Ef gjaldskrá stofnunar er endurskoðuð þannig að flest þjónusta lækkar í verði, þá finna fréttamenn samt einhvern sem eingöngu notar þá einu þjónustu sem hækkaði. Verði einhvers staðar óhapp þá finna fréttamenn einhvern sem ekki fékk „áfallahjálp“. Eigi að reisa mikilvæga byggingu þá finna fréttamenn einhvern nágranna sem ekki var boðaður á „grenndarkynningu“. Stingi einhver upp á nýjum virkjunarmöguleika, í staðinn fyrir hina sem umhverfissinnar hafa mótmælt, þá flýgur Ómar Ragnarsson strax yfir nýja staðinn og finnur foss í einhverju gljúfri sem þar með yrði „fórnað“. Meira að segja um daginn þegar sérsveit lögreglunnar yfirbugaði byssumann í Bessastaðahreppi, þá tókst fréttamönnum að hafa upp á nágranna sem ekki hafði verið sérstaklega látinn vita af því hvað lögreglan var að gera í hverfinu.
En yfirleitt eru allar þessar áhyggjufréttir óþarfar. Það er sjaldnast nokkur hætta á ferðum. Kannski var lögreglan með hugann allan við byssumanninn og gleymdi að tala við alla nágrannana áður en hún afvopnaði manninn. Kannski gleymist einhvern tíma að boða einhvern á „grenndarkynningu“. Já já. En hvað? Þó stundum sé hægt að þvaðra um það að í hundraðprósent skipulögðum fyrirmyndarheimi, þar sem allir hegða sér eins og vélmenni og allt gengur smurt, að þar væri eitthvað frábrugðið því sem viðgengst í hinum raunverulega heimi, þá ættu fréttamenn að átta sig á því í hvorum þessara heima fólk lifir. Fæst af því sem ratar í fréttir er nefnilega fréttnæmt. Flest er tómt píp. Fréttamenn ættu til gamans að prófa eitt. Þeir ættu að prófa, næst þegar þeir hafa samið frétt af einhverju „stórmálinu“, að hnýta við lesturinn spurningunni: „Og hvað með það?“ Þá kannski sæju þeir að fæst af því sem þeir þylja alvörugefnir yfir venjulegu fólki skiptir þetta fólk nokkru máli.