ÁStóra-Bretlandi er algengt að bændur bjóði ferðamönnum upp á það sem jafnan er auglýst sem „bed-and-breakfast“ – gistingu og morgunverð á býlum sínum. Hefur ætíð verið litið svo á, að þau viðskipti séu einkamál bóndans og ferðamannsins og hafa bændur engin leyfi þurft til þessarar starfsemi og ekki þurft að skrá hana hjá hinu opinbera frekar en þeir hafa viljað. Það þykir stjórnlyndum mönnum ekki nógu gott og hafa þeir því blásið til sóknar. Í Wales hafa nú verið kynntar nýjar reglur þar sem segir að enginn megi reka slíka gistiþjónustu nema hafa fengið til þess leyfi og greitt hátt gjald fyrir það. Þá kemur fram að enginn fái slíkt leyfi nema Ferðamálaráð Wales hafi kannað aðstöðu hans og athugað hvort hún uppfyllir fjölmörg skilyrði sem nú skulu sett fyrir bændagistingu. Þessi merki aðili, Ferðamálaráð Wales, segir að reglur þessar séu settar þar sem nú þurfi að keppa um ferðamenn frá heiminum öllum og þeim verði að bjóða úrvals gistingu.
Talið er að þessar reglur verði til þess að fjöldi bænda neyðist til að hætta að bjóða ferðamönnum gistiaðstöðu. Leyfisgjaldið en einkum kostnaðurinn við að uppfylla öll nýju skilyrðin verði þeim um megn og geri hugsanlegan ávinning þeirra af viðskiptunum að engu. Nýju reglurnar verða því, eins og nútímalegar og faglegar reglur verða yfirleitt, til ills. Jú jú, einhvers staðar munu ferðamenn fá íburðarmeiri bændagistingu og þeir munu geta gengið að meiri þægindum vísum þar sem þessi þjónusta verður í boði. En þjónustan mun bjóðast á mun færri stöðum en áður og hún verður vafalítið dýrari því einhver verður að borga leyfisgjaldið, eftirlitskostnaðinn og endurbæturnar. Við það bætist að fjöldi bænda, og þá einkum þeir sem minnst hafa umleikis, mun missa þessa leið til að drýgja tekjur sínar. Þetta er nú það sem mun hafast af nýju reglunum – fyrir utan ánægju faglegra nútímamanna sem ekki mega til þess hugsa að fram fari viðskipti án þess að „um þau viðskipti gildi nákvæmar reglur“, settar af færustu sérfræðingum.
Í umræðum á því sem sumir kalla velska þingið spurðist einn fulltrúi Íhaldsflokksins nýlega fyrir um það hvernig yfirvöld myndu framfylgja þessum reglum. Hvort lögreglan færi snuðrandi um bændabýli í leit að bændum sem stælust til að leyfa ferðamönnum að gista. Nútímalegur fulltrúi Verkamannaflokksins varð fyrir svörum og sagði að yfirvöld myndu fylgja reglunum miskunnarlaust eftir. Þess kann því að vera skammt að bíða að velskur bóndi verði leiddur fyrir dóm, ákærður fyrir að hafa leyft ferðamanni að gista hjá sér án þess að Ferðamálaráð Wales hafi mælt hjá honum dýnurnar.