ÁBretlandi voru nýlega sett sérstök lög um það hve miklu fé andstæðar fylkingar mega verja til að kynna málstað sinn í baráttunni fyrir eða gegn því að sterlingspundinu verði kastað en evra tekin upp í staðinn. Eru í lögunum settar verulegar hömlur á baráttu frjálsra samtaka borgaranna, svo sem stjórnmálaflokkanna og svokallaðra „nei-hreyfinga“, en ríkisstjórnin sjálf fær mun frjálsari hendur til að eyða skattfé í evrubaráttuna. Hömlurnar gagnvart eyðslu frjálsra félagasamtaka eiga að taka gildi mánuðum fyrir evrukosninguna en aðeins verða lagðar hömlur á hið opinbera 28 dögum fyrir hana. Breskir stuðningsmenn sterlingspundsins hafa nú boðað málshöfðun fyrir mannréttindadómstóli Evrópu þar sem þessar reglur séu skýr skerðing á tjáningarfrelsi borgararanna og jafnræði þeirra, en ljóst sé að mánuðum saman njóti evrusinnar látlauss áróðurs hins opinbera.
Samkvæmt nýju lögunum mega Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir eyða samtals 8 miljónum sterlingspunda til baráttunnar fyrir evrunni en Íhaldsflokkurinn 5 milljónum til baráttunnar fyrir pundinu. Ekki er hins vegar víst hver áhrif laganna verða – að því gefnu að stjórnvöld sjái sig ekki um hönd og breyti þeim – því slíkar reglur um fjármögnun stjórnmálabaráttu verða sjaldan annað og meira en orðagjálfur. Og þó, reglurnar verða hugsanlega verri en orðagjálfur. Þeir sem vilja komast fram slíkum reglum munu alltaf geta gert það. Hinir munu gjalda löghlýðni sinnar og vígstaða þeirra verður því verri sem reglurnar eru strangari. Séu framlög til stjórnmálaflokka bönnuð eða gerð opinber þá munu menn einfaldlega gefa fé til annarra samtaka sem berjast í raun fyrir málstað stjórnmálaflokksins. Í Þýskalandi hafa jafnaðarmenn notað þessa aðferð með miklum árangri en þar gefa ýmis fyrirtæki miklar fjárhæðir til sérstakra fyrirtækja sem svo ýmist kaupa auglýsingar eða styrkja Jafnaðarmannaflokkinn í eigin nafni. Einnig geta menn látið ýmis samtök, svo sem launþegafélög, öryrkjabandalög eða leigjendasamtök kaupa auglýsingar og halda fundi á lokaspretti kosningabaráttunnar og þannig komist fram hjá öllum reglum.
Enda eru reglur um fjármögnun stjórnmálabaráttunnar yfirleitt settar til að sýnast – eða þá til að þóknast sjálfsupphöfnustu starfsgrein nútímans, fjölmiðlamönnum. Sá stjórnmálamaður sem talar mikið um nauðsyn reglna um fjármál stjórnmálaflokkanna hann vinnur tvennt. Hann gefur ranglega þá mynd af sér að hann sé nútímalegur og óspilltur. Og hann gefur einnig þá mynd af andstæðingunum að þeir séu hvorugt. Og meðan upphlaupsstjórnmálamenn geta treyst því að ábyrgari stjórnmálamenn láti ekki undan gasprinu, þá mun gasprið halda áfram ár eftir ár. Þannig munu upphlaupsstjórnmálamenn tala mikið um að bókhald flokka eigi að vera opið, þrátt fyrir að þeir opni aldrei sitt eigið bókhald. Þannig geta upphlaupsstjórnmálamenn haldið áfram að heimta það að flokkarnir gefi upp hverjir styðji þá, þó þeir sjálfir muni aldrei gefa þær upplýsingar sjálfir. En alltaf munu einhverjir einfeldningar falla fyrir skruminu.