Miðvikudagur 24. júlí 2002

205. tbl. 6. árg.

RUVEFSTALEITIÍbréfi sem innheimtudeild Ríkisútvarpsins sendi völdum einstaklingum fyrir tveimur árum sagði m.a.: „Við samanburð á þjóðskrá og skrá yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins virðist sem þú sért ekki greiðandi afnotagjalda. Ef hinsvegar það er greitt afnotagjald á heimilinu vinsamlega tilgreindu hver greiðandinn er á seðlinum sem fylgir. Ef hvorki er að finna sjónvarps- né útvarpstæki á heimilinu ert þú beðinn afsökunar á ónæðinu.“
Ýmsum þótti ógeðfellt að RÚV keyrði með þessum hætti saman þjóðskrá og skrá yfir greiðendur afnotagjalda enda varðar Ríkisútvarpið ekki um annað fólk en skráð er fyrir viðtækjum.

Innheimtudeildin hefur nú breytt bréfinu sem það sendir þeim sem grunaðir eru um að horfa á þýsku leynilögguna Siska og handboltakvöld án þess að greiða afnotagjöldin. Í nýjustu útgáfu bréfsins segir því: „Samkvæmt okkar skrá yfir greiðendur afnotagjalda hefur þú ekki greitt afnotagjald. Hafir þú nýlega eignast eða fengið útvarps- eða sjónvarpstæki að láni, vinsamlega fylltu út áfasta skýrslu og endursendu með upplýsingum sem við eiga.“ Og undir bréfið er ritað „Afnotadeild RÚV“.
Innheimtudeildin hefur því skipt um nafn og heitir nú afnotadeild og þeir sem greiða ekki afnotagjöldin eru ekki lengur fundir í þjóðskrá heldur í skránni yfir þá sem greiða afnotagjöldin!

Í bréfinu er jafnframt tilgreint að samkvæmt lögum nr. 122/2000 skuli greiða afnotagjald af öllum útvarps og sjónvarpstækjum en þó aðeins einu á hverju heimili. Vef-Þjóðviljinn vill gjarnan aðstoða „afnotadeildina“ í mikilsverðum störfum. Hann hefur því tekið saman lista yfir menn sem eru sterklega grunaðir um að greiða ekki afnotagjöld Ríkisútvarpsins þótt þeir hafi bæði sjónvarps- og útvarpstæki á heimili sínu.

Halldór V. Kristjánsson deildarstjóri afnotadeildar

Eiður Sigurðsson aðstoðardeildarstjóri afnotadeildar

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri

Pétur Matthíasson fréttamaður og fyrrverandi innheimtustjóri RÚV

Ævar Kjartansson dagskrárgerðarmaður

Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðarmaður

Þorsteinn Þorsteinsson markaðsstjóri

Reynist þessi grunur réttur verður Ríkisútvarpið af um 170 þúsundum króna á ári. En þannig vill reyndar til meðal hinna grunuðu eru einmitt þeir starfsmenn „afnotadeildar“ Ríkisútvarpsins sem senda mönnum áminningu um að fara að lögunum sem þeir sjálfir hafa að engu.