Mánudagur 22. júlí 2002

203. tbl. 6. árg.

Ensk verslunarkeðja, sem nefnist A2Z og sérhæfir sig í að selja vörur við lágu verði, á nú yfir höfði sér opinbera ákæru fyrir alvarlega glæpi sem nauðsynlegt þykir að taka fast á. Það hefur nefnilega komið í ljós að þessir fantar hafa selt talsvert magn af heimsþekktu frönsku tannkremi án þess að á tannkremstúpunum séu gefnar upp nægilega nákvæmar upplýsingar um fyrirtækið sem flytur þær frá Frakklandi til Englands. Nánar til tekið, gefið er upp nafn og póstáritun fyrirtækisins en stafirnir „UK“ koma þar ekki fram. Samkvæmt sérstökum snyrtivörureglum, sem settar hafa verið til að uppfylla 25 mismunandi tilskipanir Evrópusambandsins, verða þessir stafir að fylgja öllum póstáritunum enskra borga – nema Lundúna sem séu „major city“ – og er því glæpsamlegt athæfi að láta sér nægja að segjast vera til húsa við tiltekna götu í Hull. Mega forsvarsmenn A2Z nú búast við að vera gert að greiða háar sektir og þar sem þeir neyðast til að hækka vöruverðið til að eiga fyrir þeim, þá munu bæði hinir óforskömmuðu verslunarmenn sem og viðskiptavinir þeirra, efnalitlir íbúar Hull, læra að glæpir borga sig ekki.

Grandalaus viðskiptavinur A2Z sem augljóslega hefur ekki hugmynd um hvaða fyrirtæki flutti tannkremið hans milli landa.

Hverja ætli sé verið að vernda með þessum reglum? Viðskiptavinina? Eiga þeir kannski sérstakan rétt á því að ekki sé selt tannkrem með svo nákvæmum upplýsingum? Ef einhver heldur það, vill þá sá hinn sami þá kannski benda á þann viðskiptavin sem er neyddur til að kaupa svo „illa merkt“ tannkrem. Þessi regla, sem mun kosta umrædda lágvöruverðs-keðju verulegar fjárhæðir, hefur verið sett af því einhver embættismaður hefur sagt við kollega sína að „auðvitað“ sé gott fyrir kaupandann ef á túpunum eru nákvæmar upplýsingar séu um allt mögulegt. Og áður en menn vita af er búið að setja reglu um allar þessar upplýsingar, enda hljóti það að vera neytandanum í hag. Þegar svo búið er að setja regluna, þá verður auðvitað að hafa upp á og refsa þeim illmennum sem brjóta regluna.

Allar þessar reglur leggja mikinn og vaxandi kostnað á atvinnulífið enda þurfa menn þar að eyða drjúgum tíma í að kynna sér allar reglurnar og gæta þess að eftir þeim öllum sér farið. Þessi vitleysa er ekki bundin við Evrópusambandið eitt, þó það sé vissulega afar slæmt. Hér á Íslandi vaða nú uppi menn sem eru litlu skárri og stunda hatrammt stríð gegn atvinnulífinu, en jafnan undir því yfirskini að þeir séu að tryggja „samkeppni“ og „heilbrigða viðskiptahætti“. Hafa verið sett sérstök lög til að auðvelda þessum mönnum stríð sitt og ótrúlegustu einfeldningar halda enn að þau lög hafi verið sérstakt framfaraspor. Þessi lög eru morandi í ranghugmyndum, ofstjórnaráráttu og besserwisserhætti enda samin af embættismönnum, að ósk embættismanna til þess að auðvelda embættismönnum að hafa vit fyrir venjulegu fólki.

Viðskiptavinum getur brugðið mjög, ef verðmerking er skýr og áberandi. Það er því skammt milli feigs og ófeigs, þar sem annars staðar.

Í 31. gr. samkeppnislaga segir þannig að fyrirtækjum sem selji vöru eða þjónustu skuli „merkja vöru sína og þjónustu með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það.“ Og á grundvelli þessa lagaákvæðis ákvað samkeppnisráð á dögunum að fyrirtæki nokkurt, Heilsuhúsið, skyldi sektað um svo sem 400.000 krónur þar sem embættismönnum þættu verðmerking þess ekki fullnægandi. Og hver ætli borgi þessa sekt á endanum? Örn í Heilsuhúsinu? Eða kannski kúnnar hans með hækkuðu verði? Eða kannski þeir sem hætta við að versla þar eftir að verðið hækkar til að mæta sektinni? Ætli þeir á samkeppnisstofnun eða Valgerður og félagar í viðskiptaráðuneytinu hugsi mikið um það? Nei, þar snýst heimurinn bara um „fullnægjandi verðmerkingar“ og „stjórnvaldssektir“.

En ætli þeir á samkeppnisstofnun geti svarað því hvort nokkur maður hafi verið neyddur til að kaupa hinar ómerktu vörur í Heilsuhúsinu? Eða hvort nokkur viðskiptavinur hafi árangurslaust spurt afgreiðslumanninn um nokkurt verð? Nei ætli þeir velti slíkum spurningum fyrir sér. Ætli þeir hugsi um annað en að nauðsynlegt sé að setja reglur um „fullnægjandi verðmerkingar“ því annars kaupi fólk bara helling af vörum án þess að hafa hugmynd um það hvað hann kostar. Og hver vill það, ha?