Helgarsprokið 21. júlí 2002

202. tbl. 6. árg.

Fyrir kosningar til borgarstjórnar nú í vor var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hvað eftir annað spurð hvort hún væri að gefa kost á sér til þess að leiða R-listann á vettvangi borgarmála allt næsta kjörtímabil eða hvort hún hygðist hverfa úr borgarstjórastólnum að ári og gerast leiðtogi Samfylkingarinnar á Alþingi. Þessar spurningar voru auðvitað ekki út í loftið. Kosið verður til þings næsta vor og fjölmargir flokksmenn Ingibjargar Sólrúnar í Samfylkingunni hafa ítrekað lýst yfir áhuga á því að nýta krafta hennar á sviði landsmálanna og sumir jafnvel gengið svo langt að segja, að án forystu hennar á landsvísu eigi Samfylkingin ekki möguleika á því að hefja sig upp úr stöðu áhrifalítils smáflokks í íslenskum stjórnmálum. Reynslan hefur líka sýnt, að sigursælir forystumenn á vettvangi borgarmálanna eiga að jafnaði greiða leið inn í landsmálapólitíkina.

Eins og flestir muna gáfu R-listamenn yfirleitt lítið fyrir þessar vangaveltur. Þannig var lengi gefið í skyn, að það væri bara ómerkilegur áróður, ættaður úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins, að halda því fram að Ingibjörg myndi ekki sitja sem borgarstjóri út kjörtímabilið. Látið var í veðri vaka, að fjölmiðlamenn sem spyrðu þessarar spurningar eða leyfðu sér að velta vöngum yfir hugsanlegum eftirmanni hennar innan borgarstjórnarhóps R-listamanna, væru annað hvort ómarktækar blaðurskjóður eða hreinir útsendarar flokksskrifstofu Sjálfstæðisflokksins. Eini frambjóðandi R-listans, sem í upphafi freistaðist til að taka þátt í umræðum um sjálfan sig sem mögulegan arftaka Ingibjargar og borgarstjóraefni, var fljótlega múlbundinn hvað þetta efni varðaði og sætti sig við það sem eftir var kosningabaráttunnar að þylja í sífellu upp nokkur slagorð um „nútímalegan framtíðarborgarborgarbrag“, „framtíðarlegan nútímaborgarbrag“ eða eitthvað svoleiðis. Þegar fjölmiðlamenn og stjórnmálaandstæðingar spurðu Ingibjörgu sjálfa út í framtíðaráform hennar reyndi hún í upphafi að svara óljóst og þokukennt í anda véfréttarinnar í Delfí, en þegar leið á baráttuna og spurningarnar urðu beinskeyttari, urðu svörin að sama skapi ákveðnari. Þannig breyttist orðalagið úr því að vera eitthvað á þá leið að hugur henni stæði ekki til annars en að vera borgarfulltrúi næstu fjögur árin í þá veru að hún ætlaði sér ekki að fara í framboð til Alþingis vorið 2003. Vera kann að hún hafi með orðavali sínu skilið eftir einhverja smugu, sem hún getur notast við næsta vetur þegar framboð til Alþingis verður ákveðið, en a.m.k. máttu kjósendur ótvírætt skilja hana svo í kosningabaráttunni í vor, að hún myndi ekki skipta um vettvang í stjórnmálunum fyrr en í fyrsta lagi eftir kosningarnar 2006.

„Ingibjörg Sólrún hefur staðið fyrir hefðbundinni skatta- og skömmtunarstefnu vinstri manna í borgarstjórn og mun áfram standa fyrir sömu stefnu þegar hún kýs að hverfa til starfa á vettvangi þingflokks Samfylkingarinnar.“

Hér er þetta rifjað upp, nú tæpum tveimur mánuðum eftir borgarstjórnarkosningar, að þegar eru farin að sjást ýmis merki um að innanbúðarmenn í Samfylkingunni séu farnir að búa til jarðveginn fyrir innkomu Ingibjargar Sólrúnar í landsmálin. Miðað við yfirlýsingar hennar sjálfrar í vor er ljóst, að til þess að hún geti tekið u-beygju í þessu máli og þannig gengið á bak fyrri orðum sínum, þá verður til að koma mikill utanaðkomandi þrýstingur. Þrýstingur, sem hún getur sagt að sé svo mikill og eindreginn, að hún eigi ekki annarra kosta völ en að láta undan. Fyrstu dæmin um þennan þrýsting komu fljótlega í ljós í skrifum á vefsíðum, sem tengjast stuðningsmönnum Samfylkingarinnar. Nú á laugardaginn mátti svo lesa grein í Morgunblaðinu, þar sem Margrét S. Björnsdóttir, félagi í Samfylkingunni og innanbúðarmaður í Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki til áratuga, hvetur Ingibjörgu eindregið til að taka að sér leiðtogahlutverk í flokknum. Enginn ætti að láta það hvarfla að sér, að Margrét skrifi þessa grein án samráðs við einhverja flokksfélaga sína. Enginn ætti heldur að láta sér detta í hug, að þetta verði síðasta greinin af þessu tagi sem birtist í blöðunum. Fullyrða má, að skrif af þessu tagi eiga eftir að færast í vöxt á næstu vikum og mánuðum og einhvern tímann í vetur mun Ingibjörg Sólrún lýsa því yfir, að nú sé þrýstingurinn orðinn óbærilegur, vilji flokksmanna hennar sé ljós og hún geti ekki lengur skorast undan.

Hitt er svo annað mál, að þótt Ingibjörg Sólrún sé ótvírætt sigursæll stjórnmálamaður á vettvangi borgarmálanna, þá er lítil hætta á að hún muni leika sama leikinn á vettvangi landsmálanna og hún hefur gert í borgarmálunum. Framsóknarmenn og Vinstri grænir eru engir sérstakir aðdáendur hennar og hafa þolað forystu hennar í borgarmálum af þeim sökum einum, að reynsla fyrri ára sýndi þeim að sameinað framboð og óumdeildur leiðtogi voru nauðsynlegar forsendur fyrir því að vinstri menn gætu hnekkt meirihlutastöðu Sjálfstæðisflokksins þar og þar með komist sjálfir að kjötkötlunum. Í landsmálunum eru samstarfs- og stjórnarmyndunarmöguleikar miklu fleiri og Framsóknarflokkur og Vinstri grænir hafa í sjálfu sér enga ástæðu til að vinna frekar með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokki. Í öllum tilvikum er margt sem skilur á milli, á sama tíma og hinir ólíku flokkar geta fundið önnur mál sem sameina. Ingibjörg Sólrún mun því ekki ná þeirri stöðu í landsmálunum að verða leiðtogi breiðfylkingar allra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, en það er auðvitað slík staða sem fært hefur henni þá stjórnmálalegu vigt, sem hún hefur sem borgarstjóri í Reykjavík. Ingibjörgu verður hins vegar tekið fagnandi af stórum hluta Samfylkingarinnar og mun hugsanlega getað hresst örlítið upp á stöðu þess flokks á Alþingi, enda hefur núverandi forysta flokksins þar verið harla aum og fremur verið til þess fallin að vekja samúð en stuðning og traust. Hvað málefni og stefnumið varðar er ekki von á neinni sérstakri breytingu hjá Samfylkingunni þótt Ingibjörg Sólrún komist þar til forystu. Ef litið er til ferils hennar í embætti borgarstjóra má sjá afar hefðbundnar vinstri áherslur, ekkert ólíkar þeim sem finna má hjá þingmönnum Samfylkingarinnar í dag. Undanfarin átta ár hafa útgjöld borgarinnar aukist verulega á flestum sviðum, skattar hafa verið hækkaðir, skuldum safnað, embættiskerfið þanið út og reglubyrði á borgarana aukin til muna. Þetta er einmitt það sama, og vænta mætti af Samfylkingarmönnum á Alþingi, fengju þeir einhverju ráðið. Að sama skapi mætti búast við auknum umsvifum opinberra aðila í atvinnulífinu með sama hætti og borgin og borgarfyrirtæki hafa verið að færa sig upp á skaftið í atvinnurekstri, oftar en ekki í beinni samkeppni við einkaaðila. Ingibjörg Sólrún hefur staðið fyrir hefðbundinni skatta- og skömmtunarstefnu vinstri manna í borgarstjórn og mun áfram standa fyrir sömu stefnu þegar hún kýs að hverfa til starfa á vettvangi þingflokks Samfylkingarinnar. Hún mun hugsanlega styrkja stöðu flokks síns tímabundið, en hún mun ekki valda þeim straumhvörfum í íslenskri pólitík, sem helstu aðdáendur hennar gera sér vonir um.